Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:16:10 (5751)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna umræðu um aukna verkmenntun og hversu menn virðast nú á einu máli um að leggja beri aukna áherslu á iðn- og verknám yfirleitt í landinu.
    Raunar hefur þetta svo sem heyrst áður og svo lengi sem ég man. En mönnum þykir tiltölulega lítið hafa gerst. Þess vegna er ekki verið að hreyfa hér máli sem ekki hefur áður verið nefnt heldur er hér verið að hvetja til aðgerða. Það er vissulega góðra gjalda vert og ég styð það eindregið að nú verði farið að hefjast handa.
    Tillagan er í raun og veru um það að menntmrh. verði falið að kveðja saman starfshóp sem hafi það verkefni að endurmeta iðn- og verkmenntun í landinu og gera tillögu að breyttu og bættu skipulagi, eins og segir í tillögugreininni.
    Mér þykir sjálfsagt að hv. menntmn. athugi þetta mál og meti það hvort ástæða sé til að kveðja saman sérstakan starfshóp til þessa verks. Ég hef um það efasemdir vegna þess að þetta mál hefur fengið verulega umfjöllun að undanförnu í nefnd um mótun menntastefnu og endurmat iðn- og verkmenntunar fer nú fram einmitt á vegum þeirrar nefndar. Þessu eru gerð nokkuð ítarleg skil í áfangaskýrslu þessarar nefndar, skýrslu sem skilað var til mín í lok janúarmánaðar sl.
    Í þeirri skýrslu er, eins og ég sagði, tekið töluvert ítarlega á þessu máli. Ég vil nefna nokkur atriði sem koma fram í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m.a.: ,,Með starfsmenntun og starfsnámi er átt við allt nám, bæði bóklegt og verklegt, sem skipulagt er sem markviss undirbúningur fyrir tiltekin störf eða starfssvið. Á síðustu árum hefur verið mjög einhliða áhersla á almennt bóklegt nám á kostnað verklegs náms og starfsnáms á framhaldsskólastiginu. Fáir nemendur skrá sig á starfsmenntabrautir framhaldsskólanna og eru ástæður þess ekki ljósar. Ólíkt því sem gerist í öðrum löndum, þar sem allt að 70% nemenda lýkur starfsmenntun, virðist stúdentspróf á bóknámsbrautum vera aðalmarkmið íslenskra unglinga. Þannig virðist sem starfsmenntun skipi ekki þann sess hér sem hún gerir annars staðar.``
    Þá segir hér síðar þegar talað er um mikið brottfall líka: ,,Að hluta til mætti skýra mikið brotthvarf af starfsnámsbrautum framhaldsskólans með því að nemendur hafi farið út á vinnumarkaðinn en trúlega má einnig leita skýringar í því að námið á þessum brautum er ekki miðað við nemendur með slakan námsárangur. Virðist því um annað tveggja að ræða að breyta náminu til að koma til móts við þá nemendur sem þangað sækja eða að veita nemendum betri undirbúning áður en þeir hefja starfsnám.``
    Nefndin segir svo áfram:
    ,,Starfsnám í framhaldsskólum verði eflt til muna frá því sem nú er að gæðum og fjölbreytni. Endurmeta þarf uppbyggingu náms á einstökum starfsmenntabrautum. Taka ber mið af lokamarkmiði námsins í námsinnihaldi í stað þess að einstakir námsáfangar nýtist í námi á óskyldum námsbrautum eins og nú tíðkast. Loks ber að leita ráða til að auka áhuga ungs fólks á verkmenntun.``
    Um hefðbundnar iðngreinar segir svo:
    ,,Iðnnám fer nú fram í fjölbrautaskólum víðs vegar um land, tveimur verkmenntaskólum og tveimur iðnskólum. Allir þessir skólar starfa eftir samræmdu áfangakerfi framhaldsskóla. Núverandi náms- og skólaskipan á framhaldsskólastigi hefur þróast í kjölfar mikillar umræðu sem fram fór á fyrri hluta 8. áratugarins. En í dag skortir rannsóknir á því hvernig þessir skólar hafa náð að sinna verkmenntun í landinu.
    Niðurstöður úr könnun Félagsvísindastofnunar, Námsferill í framhaldsskóla, sýna að einungis um 9,4% nemenda sem skrá sig í framhaldsskóla hefja strax starfsnám. Nemendur virðast ekki líta á það sem ákjósanlegan kost að loknum grunnskóla að fara beint í starfsnám þó ýmsir geri það síðar. Í skýrslunni má einnig sjá að einungis 37,7% þeirra nemenda sem einhvern tímann skrá sig í iðnnám hafa lokið því sex árum eftir grunnskólapróf. Lítill áhugi á starfsnámi og hátt brottfall af iðnnámsbrautum vekur grunsemdir um að einhverju sé ábótavant í iðnmenntakerfinu.
    Samhliða þessum upplýsingum gerast nú kvartanir fulltrúa einstakra iðngreina um skilvirkni iðnmenntakerfisins æ háværari. Ýmsar iðngreinar á undanförnum árum hafa sótt mjög ákveðið um við ráðuneyti menntamála að bæta menntun í þessum greinum og má þar nefna prentiðnað og málmiðnað. Að mati forsvarsmanna þeirra er námið sem opinbera skólakerfið býður upp á allsendis ófullnægjandi og því fari fjarri að nýútskrifaðir iðnnemar uppfylli þær hæfniskröfur sem fagmenn og atvinnurekendur gera til þeirra. Telja þeir m.a. að stjórnun iðnmenntunar sé of þunglamaleg og möguleikar atvinnulífsins til að hafa áhrif á iðnnámið í gegnum fræðslunefndir séu takmarkaðir.``
    Þetta segir í skýrslunni og ýmsan annan fróðleik um þetta atriði er að finna í þessari áfangaskýrslu. Ég tek fram að 18 manna nefndin um mótun menntastefnu hefur ekki lokið störfum og á eftir að koma sérstaklega að þessu máli aftur og með beinar tillögur. Þetta er sem sagt allt í athugun nú þegar og ég vænti þess að endanlegar tillögur þessarar nefndar liggi fyrir í endanlegu formi á næsta Alþingi.
    Vegna spurningar hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um það hvort ráðherra hafi gefið frá sér allt vald yfir úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna þá er ekki svo að ráðherra hafi gert það. Ég get upplýst hér að ég hef átt fundi með framkvæmdastjóra lánasjóðsins þar sem við höfum farið yfir ýmislegt sem má betur fara í úthlutunarreglunum. Nú er komin á þær fyrsta reynslan. Við munum raunar eiga fund seint í dag um þau efni. Það er allt saman í endurskoðun og einnig útgáfa á sérstökum reglum eða reglugerð fyrir lánasjóðinn og þeirri endurskoðun verður væntanlega lokið mjög fljótlega.
    Ég hvet að lokum til þess að hv. menntmn. athugi þetta mál vandlega.