Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:24:35 (5752)


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft máli sem í rauninni hefur margsinnis verið hreyft áður. Í öllum þeim heildarskýrslum um menntamál sem ég hef séð hefur verið rætt um að það þurfi að bæta verkmenntun og auka virðingu hennar. Það virðist eigi að síður ekki hafa tekist eftir þeim upplýsingum sem bæði komu hér fram og hæstv. menntmrh. var að lesa upp úr skýrslunni rétt áðan.
    Árið 1962, þegar ég byrjaði að kenna, voru deildir sem kallaðar voru verknámsdeildir í gagnfræðaskólum landsins. Þær voru að mínum dómi a.m.k. sums staðar á landinu ein af orsökunum fyrir því að verkmenntunin hefur látið ofan. Vegna þess að svo virtist sem ýmsir litu þannig á að í þessar deildir ættu aðeins að fara þeir nemendur sem væru illa gefnir til bókarinnar, það væru þá þeir sem hentuðu best í verknám og iðnnám. Þetta var slík firra og vitleysa sem mest mátti vera. Ég varð vör við að í ýmsum skólum var þessu hreinlega trúað og haldið fram. Hinir nemendurnir áttu að fara í stúdentsprófið því að það hefur alltaf verið sagt á Íslandi: skítt með alla skynsemi, gáfur eru gull og gáfurnar færa okkur upp í háskóla með stúdentsprófi en skítt með skynsemina sem þarf til þess að vinna almenn verk í landinu. Þessu hefur verið trúað á Íslandi. Við Íslendingar erum því miður óttalegir slóðar í þessum efnum og höfum lengi verið.
    Það sem þarf fyrst og fremst að gera er að breyta viðhorfinu til iðn- og verkmenntunar. Það voru einstaka skólar sem ráku öðruvísi deildir. Ég kenndi í slíkum verknámsdeildum þangað sem komu nemendur sem virkilega höfðu áhuga á að fara í visst starfsnám og komu hvað sem öllum greindarvísitölum og prófum leið. Ég gat ekki betur séð en bæði þessir nemendur og þeir sem komu með lágu einkunnirnar sínar í þessar deildir stæðu sig miklu betur en almennur nemandi í gagnfræðaskólunum, vegna þess að þeir höfðu eitthvert markmið að stefna að og vegna þess að þeim var kennt eitthvað sem þau álitu að þau hefðu gagn af til viðbótar við það bóklega sem þeir urðu náttúrlega að læra eins og allir hinir. Í þessum hópum voru nemendur sem voru bráðvelgefnir og stóðu til þess að verða hinir mætustu iðnaðarmenn eða verkmenn hvar sem í starfsmennt var.
    Ég held að við Íslendingar séum sjálf búin að skemma svo geysilega fyrir okkur með þessu viðhorfi sem við höfum haft. Það voru stofnaðar verslunardeildir. Þær blómstruðu þó nokkuð vegna þess að við höfum alltaf dýrkað peningana líka og þá var dálítið fínt að fara í verslunardeild og maður gat sætt sig við að þangað færi greindur nemandi. Síðan var stofnað til framhaldsdeilda gagnfræðaskólanna, sem var undanfari áfangakerfisins, sem nú hefur gagntekið skólakerfið um áratugi, eða réttara sagt í 20 ár. Þegar þessar deildir voru stofnaðar var líka verið að hugsa um að ýta undir verkmenntun í landinu vegna þess að þetta voru starfsnámsdeildir, hjúkrunardeildir, viðskiptadeildir og iðnaðardeildir. Þessar deildir voru hugsaðar beint til þess að ýta undir starfsnám vel gerðs fólks. Og það tókst. Í þessum deildum var aragrúi af ungu fólki sem hefur síðan haslað sér völl á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Það er dálítið merkilegt með þessar deildir að í þær kom líka mjög mikið af ungu fólki sem hafði skapandi gáfur. Ekki fólk sem hin dauða hönd hins almenna menntakerfis í landinu hafði kúgað heldur fólk sem átti eftir að sýna að það hafði skapandi gáfur. Ég gæti nefnt fjölda fólks sem núna eru frammámenn í listum á Íslandi og einmitt kom inn í þessar deildir vegna þess að þær ýttu undir skapandi hæfileika.
    Síðan komu áfangadeildirnar, þ.e. áfangakerfið. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi nauðsynlega að endurskoða og meta árangurinn af áfangakerfinu í landinu. Ég er innilega sammála því sem áður var sagt um það. Það getur vel verið að það hafi heppnast mjög vel en ég er hrædd um að ýmislegt þurfi þar að endurskoða vandlega.
    Það er talað um það í greinargerðinni að bæta þurfi námsráðgjöfina og vekja athygli á henni. Ég held að námsráðgjöfin þurfi að eflast mjög, bæði sú námsráðgjöf sem nemendur fá áður en þeir fara í framhaldsnám, eða velja sér leiðir í tilverunni, og líka eftir að komið er inn í skólakerfið. Nemendur þurfa virkilega að eiga völ á ráðgjöf um það hvernig þeir geti hagað námi sínu og störfum. Þar á ég ekki síst við í iðnnáminu. Mér er kunnugt um hve nemendur eru oft ráðlitlir þegar þeir eru komnir í framhaldsskóla verknáms. Þar eru svo fáir námsráðgjafar að þeir anna jafnvel ekki því sem þeir þurfa að gera. Þess vegna þarf að styrkja þessa hlið málsins.
    En númer eitt er að við þurfum að breyta viðhorfi þjóðarinnar til verkmennta. Við þurfum að breyta viðhorfi þjóðarinnar til þess að það er virkilega mikilvægt og merkilegt að verða iðnaðarmaður ekki síður en fá hvítan koll sem bara opnar leið inn í einn eða tvo skóla. Um þetta mætti margt og mikið segja þegar maður lítur yfir langan skóla- og kennsluferil en það er sláandi að bara 9% skuli fara í starfsmenntun hér á Íslandi. Ef við gætum fundið leið til að breyta þessu viðhorfi, sem er grundvallaratriði í þessu máli, þá væri vel. Og ef þessi starfshópur sem þáltill. fjallar um verður settur á stofn, þá á eitt af störfum hans að vera að finna leið til þess að breyta þessu viðhorfi. Sú nefnd sem er að störfum á vegum hæstv. menntmrh. ætti líka að leggja í það mikla alúð að finna leiðir til að breyta þessu viðhorfi.