Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:47:19 (5755)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er vissulega hreyft mjög mikilvægu máli og það vakna margar spurningar þegar við veltum fyrir okkur iðn- og verkmenntun í landinu. Ég held að það sé nokkuð almenn skoðun að það þurfi verulega að taka á í þeim efnum. En það er ákveðin hugmynd sem gengur í gegn í þessari umræðu og mér fannst glitta í í skýrslu svokallaðrar 18 manna nefndar. Hún er sú að það sé einfaldlega hægt að skipta fólki upp í þá sem annaðhvort passa í bóknám og verknám og að þetta tvennt fari ekki saman. Það hljóti eiginlega að vera hinir lakari námsmenn í bóknámi sem fara í verknám. Kannanir sýna að fólk getur haft mikla hæfileika bæði á verklegu sviði og bóklegu og fólk getur verið þannig úr garði gert að það hafi enga hæfileika, hvorki til bóknáms né verknáms, og þarf þá að leita á einhver önnur mið.
    En þær spurningar vakna varðandi þetta mál hver staðan er varðandi verkmenntun þjóðarinnar. Við búum við það að hér er eins konar tvöfalt kerfi í þessu. Annars vegar búum við við leifar af meistarakerfinu sem á rætur að rekja allt til miðalda, hins vegar er hluti þess í framhaldsskólakerfinu. Mér þótti mjög fróðlegt sem fram kom í heimsókn okkar kvennalistakvenna til Iðntæknistofnunar nú nýlega þar sem velt var upp þeirri spurningu hvort einmitt þetta kerfi standi ekki verkmenntun fyrir þrifum og að hinum löggiltu iðngreinum og þeirra félögum hætti við að standa í vegi þess að kennsla sé tekin upp í ýmsum nýjum greinum og því sem er að koma upp nýtt í atvinnulífinu.
    Hins vegar hefur iðnmenntun að hluta til verið beint í framhaldsskólakerfið og við hljótum að velta því fyrir okkur hverju það hefur skilað. Hverju hefur það skilað að setja upp þessar brautir í framhaldsskólunum? Ég þekki dæmi þess að menn hafa jafnvel verið í mjög merkilegri tilraunastarfsemi í verkmenntun og dettur mér þá í hug það sem ég skoðaði í fyrra uppi á Akranesi í framhaldsskólanum þar. En sú nefnd sem er að endurskoða menntakerfið hlýtur að verða að gera sér grein fyrir því hverju þetta kerfi hefur skilað og hvort við erum á réttri leið með því að fara inn í framhaldsskólann. Ég er ekki alveg viss um það. Ég er ekki viss um að við séum á réttum brautum í þessum efnum.
    Þegar verið er að ræða menntamál, og þá vísa ég til fundar sem ég og fleiri höfum átt með fulltrúum hinnar margnefndu 18 manna nefndar, finnst mér fyrsta spurningin sem við þurfum að spyrja okkur þegar við horfum á menntakerfið vera: Hvaða menntun þarf þjóðin? Á hvaða menntun þurfum við að halda í framtíðinni? Ég held að þegar við hugum að iðn- og verkmenntun, þá séum við svolítið bundin við fortíðina. Við þurfum að huga að framtíðinni og þeim markmiðum sem við viljum setja okkur í atvinnumálum. Til hvers þurfum við að mennta fólk? Ég held t.d. að menntun starfsfólks í matvælaiðnaði hafi verið af allt of skornum skammti og að menntun þeirra sem vinna við sjávarútveg hafi líka verið af of skornum skammti því að við byggjum fyrst og fremst á matvælaiðnaði, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, og við þurfum að huga að því hvort ekki þurfi að taka þar verulega á.
    Iðn- og verkmenntun er ekki bara það að gera við bíla eða klippa og raka eins og hér kom fram áðan. það er svo gríðarlega margt sem heyrir undir verkmenntun og við getum spurt okkur þeirrar spurningar: Á skólakerfið fyrst og fremst að veita fólki almenna góða menntun en sérhæfing síðan að fara fram annars staðar, á vinnustöðum eða í gegnum námskeið eða eitthvað slíkt? Ég bara velti þessu upp. Ég get ekki svarað þessu sjálf. En ég hef það á tilfinningunni að við séum fullmikið bundin við fortíðina í þessum efnum og við þurfum kannski að hugsa þetta svolítið upp á nýtt og ekki síst út frá spurningunni: Hvaða menntun þarf þjóðin á komandi áratugum, ekki bara fram að aldamótum heldur á komandi áratugum? Hvaða markmið ætlum við að setja okkur? Hvaða iðngreinar ætlum við að efla? Hvaða atvinnulíf ætlum við að byggja upp í landinu og hvers konar fólk þurfum við til þess að byggja það upp?
    Við hugsum um ýmiss konar þjónustu við sjávarútveginn, eins og skipasmíðar sem hafa heldur verið að drabbast hér niður því miður og hafa verið fluttar úr landi. Viljum við gera eitthvað í því að efla þær iðngreinar sem að þeim snúa? Þannig getum við velt upp spurningum. Ég held að forsendan sé sú að við setjum okkur markmið sem tengjast atvinnumálum í leiðinni og menntunin tengist þeim markmiðum.