Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:53:46 (5756)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Herra forseti. Hvaða menntun þarf þessi þjóð? spurði hv. 18. þm. Reykv. rétt áðan. Það hefur verið rætt mikið á þeim fundum og þingum sem ég hef komið á hvaða menntun nútímamaðurinn þarf til þess að standast þær kröfur sem lífið gerir til hans, bæði starf og líf. Það er almenn skoðun að góð grundvallarmenntun í almennum fræðum sé undirstaða þess að við getum staðið í samkeppni við aðrar þjóðir. Þar af leiðandi er það númer eitt. Grundvallarmenntun verður að vera mjög góð.
    Síðan er hægt að ræða um það, hvaða menntun þessi þjóð þarf sérstaklega. Ég vil undirstrika að hver starfsgrein þarf að fá þá þekkingu sem henni er nauðsynleg til að standa almennilega í stykkinu í störfum sínum og hún þarf fullvissu um mikilvægi og gildi þess starfs sem verið er að vinna. Til þess að fólkið, hvort sem það er í fiski eða hvar sem það er, vinni vel verður það fyrst og fremst að fá þekkingu á

mikilvægi þess sem það er að vinna að. Það er grundvallarmenntunin sem fólkið þarf, þ.e. góð almenn menntun og að skilja hvað það er að vinna að og skilja hversu mikils virði það er fyrir það sjálft og þjóðina alla sem það er að gera þegar það er að flaka þorskinn eða hvað annað sem það er að gera.
    Til viðbótar við þetta vildi ég nefna í sambandi við það sem hv. 9. þm. Reykv. ræddi um, þ.e. að verkmenntun sé dýr. Það er alveg hárrétt og það hefur staðið skólunum mjög fyrir þrifum að þeir álíta sig þurfa að eiga öll tæki sjálfir til þess að kenna hinar ýmsu greinar en það er hlutur sem við munum aldrei geta. Þar af leiðandi verðum við að fara þessa leið sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi að semja við hin ýmsu fyrirtæki og starfsgreinar um að fá að senda nemendur til kynningarnáms í störfunum. Það er eina leiðin sem þessi þjóð hefur því að við erum of fátæk til að setja annað á stofn og það er líka vitleysa að gera það. Það er verið að ræða mikið um það að tengja atvinnulíf og verkmenntun og starfsmenntun og það er einmitt ein af leiðunum að fá að senda fólk í kynningarstörf, ekki í starfskynningu heldur í kynningarstörf í hinum ýmsu fyrirtækjum og stofnunum.