Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 14:57:32 (5757)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég rakti þessi mál aðeins og viðhorf mín til þeirra áðan en ég átti eftir að tala pínulítið um skýrslu 18 manna nefndarinnar. Þar eru mjög falleg orð um þessi mál sýnist mér og mér sýnist að á mörgum sviðum sé 18 manna nefndin í grófum dráttum sammála því sem kemur fram í ritinu ,,Til nýrrar aldar`` og í svokallaðri grænni bók menntmrn. um innra starf í framhaldsskólum, sem við ræddum talsvert mikið í framhaldsskólum á síðasta kjörtímabili. Hins vegar finnst mér að komi fram í skýrslu 18 manna nefndar talsvert sterk flokkunarárátta í grunnskólum og í framhaldsskólum sem ég óttast að verði til þess að bóknáminu verði gert enn þá hærra undir höfði en gerist þó í dag vegna þess að sú flokkun sem gert er ráð fyrir í framhaldsskólana, bæði með fornámi og svokölluðu gagnfræðanámi, byggist samkvæmt textanum á þeirri forsendu að tilgangurinn sé aðallega sá að lyfta þeim sem ekki ná 6 á grunnskólaprófi og komast beint inn í framhaldsskóla og þar með bóknám upp í þá stöðu eftir grunnskólaprófið að þeir komust í bóknámskerfið líka. Ég tel því að í rauninni vanti allt kjöt á beinin í þessari skýrslu að því er það varðar að lyfta verknáminu á nokkurn hátt því að til þess þarf grundvallarbreytingu á þessu kerfi. Það er mín reynsla og þess vegna nefndi ég þetta með samning. Ég sé þetta þannig fyrir mér, virðulegi forseti, að það sé gerður samningur fyrir hvern nemanda. Hann fer í iðnskóla eða einhvern fjölbrautaskóla þar sem verknám er og skólinn gerir samning við marga vinnustaði um að þessi nemandi geti farið þar inn.
    Síðan spyr maður auðvitað þeirrar spurningar. Þarf ekki að ganga þarna talsvert mikið lengra? Ég nefni þetta út frá því sem hv. 16. þm. Reykv. benti á. Hann nefndi netamenn. Þeir kunna allt til verka á því sviði en þeir eru ekki brúklegir á netagerðarverkstæðunum þegar þeir koma í land, ekki á sama hátt og aðrir. Af hverju er það? Það er vegna þess að þetta sveinsprófa- og meistarakerfi gerir ekki ráð fyrir neinu beinu flæði frá atvinnulífinu og inn í kerfið. Af hverju fær ekki maður sem hefur verið á sjó lengi að taka það sem heitir stöðupróf í bóknámsskólum í þeirri verklegu grein að gera við net og vinna við netagerð? Ég held að menn eigi að hugsa tiltölulega róttækar hugsanir á þessu sviði og velta því fyrir sér hvort ekki er hægt að brjóta þetta kerfi þannig talsvert mikið upp.
    Auðvitað á það að vera þannig að sami maðurinn geti í raun og veru sett saman sitt verknámspróf úr ýmsum greinum. Auðvitað á það að vera þannig að einn og sami maðurinn geti sett saman sitt verknámspróf, segjum úr rafvirkjun, skipasmíði, netagerð eða hvað það nú er. Af hverju ekki? Staðreyndin er auðvitað sú að það sem skiptir máli upp á framtíðina er sveigjanlegur, opinn og almennur menntunargrundvöllur en ekki það að menn séu frystir inni í einhverju þröngu og tiltölulega lokuðu fagi sem úreldist ævinlega nema menn séu stöðugt á endurmenntunarnámskeiðum.
    Þess vegna vil ég að lokum svara því aðeins sem hv. 18. þm. Reykv. sagði. Við þurfum að byrja á því að skilgreina hvers konar menntun þjóðin þarf og ég vil segja við hv. þm.: Ég tel að það sé ekki hægt að setja sér nein slík markmið því að við vitum ekki hvernig þjóðin, atvinnulíf hennar og efnahagslíf þróast. Aðalatriðið er þess vegna góð grunnmenntun, góður grunnskóli, góður barnaskóli þar sem fólk er menntað til þess að takast á við sem flest ný vandamál í lífinu. Menn átta sig á því að í raun og veru er það liðin tíð að nokkur maður ljúki nokkurn tíma námi. Í raun og veru er ekki hægt að ljúka námi lengur í neinni einni grein, sem betur fer. Þess vegna þurfa menn að tileinka sér það viðhorf að menn þurfi að vera í námi og endurmenntun og umskólun af ýmsu tagi svo að segja alla ævina. Og þetta kerfi, annars vegar grunnskólann og hins vegar verkmenntunarkerfið og endurmenntunarkerfið, þurfa menn auðvitað allt saman að horfa á í samhengi.
    Aðalatriðið held ég að sé það að menn reyni að ná samningum, samvinnu við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið um nýtt verkmenntakerfi því að það þýðir auðvitað ekki að vera að útskrifa fólk úr framhaldsskólunum með einhver próf í einhverju ef það er einskis metið í atvinnulífinu. Það segir sig alveg sjálft að það gerir illt verra að gera slíka hluti.
    Á þetta legg ég fyrir mitt leyti mikla áherslu um leið og ég segi: Ég tel að það geti vel verið að þessi umræða geri eitthvert gagn. Ég veit ekkert um það. Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég veit ekki hvort það verður tekin mikil lota á þessari tillögu þegar hún kemur til nefndarinnar. Því ræður auðvitað meiri hlutinn. A.m.k. finnst mér það hollt að fara í gegnum umræðu af þessu tagi og heyra margvísleg viðhorf úr ólíkum áttum til þessa mikilvæga máls sem getur ásamt öðru ráðið úrslitum um það hvort við höldum hér

uppi sæmilegum lífskjörum á komandi árum eða ekki.