Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:19:53 (5760)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar flm. að þakka þeim tveimur hæstv. ráðherrum og fjölmörgu þingmönnum sem tóku til máls um þetta mál sem allir voru sammála um að á einhvern hátt væri brýnt að taka á. Ég vil lýsa mikilli ánægju með þessa umræðu. Ég held að hún hafi verið af hinu góða. Í framhaldi af henni finnst mér mjög eðlilegt að Alþingi álykti um iðn- og verkmenntun. Að sjálfsögðu verður tillagan til umfjöllunar í menntmn. þar sem ég á sæti. En miðað við hversu góðar undirtektir urðu hér við tillögunni og umræður miklar þá held ég að það hljóti að vera eðlilegt að Alþingi álykti. Ég er ekki að segja að það megi ekki breyta tillögugreininni sem hér er lögð fram en það er náttúrlega verkefni nefndarinnar að fjalla um það. Málið er brýnt og ég vil meina, þó ég geti tekið undir það með mörgum sem hér hafa talað að þetta er ekkert ný umræða, að viðhorfið sé að breytast í þjóðfélaginu almennt og ég er ekki frá því líka hér á hv. Alþingi. Viðhorfið er að breytast í þá átt að það sé ástæða til þess að hefja verkmenntun til virðingar og flokka fólk ekki niður í einhvers konar virðingarhópa eftir því hvort það fer í langtímanám í háskóla eða verknám.
    Hæstv. forseti. Því miður gat 1. flm. ekki verið hér við framhald umræðunnar en hann mælti fyrir tillögunni fyrir nokkuð mörgum dögum síðan. Það hefði verið gott að hafa hans ræðu líka með í þessari umræðu hér í dag því hún var mjög merk og hann kom víða við.