Iðn- og verkmenntun

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:22:33 (5761)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess líka að fagna þessari umræðu og hversu málefnaleg hún hefur verið. Ég segi það ekki vegna þess að það hefði svo sem verið ástæða til að búast við einhverju öðru. Mér finnst ástæða til bara að taka þetta fram.
    Hv. þm. Svavar Gestsson velti hér upp nokkrum atriðum sem hann taldi valda því að vegur verkmenntunarinnar væri ekki meiri en hann er. Ég get tekið undir flest af því sem hann sagði. T.d. það, eins og hann orðaði það, að iðnríkið Ísland væri á undanhaldi. Auðvitað eru sveiflur í íslensku efnahagslífi og það hefur kannski áhrif á val manna á námsbrautum. Og það er alveg ljóst, eins og kom t.d. fram í ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að það er engin eftirspurn eftir fólki í tilteknum iðngreinum í dag. Einhvers staðar eru takmörkin fyrir því hvað hinar ýmsu iðngreinar taka við á hverjum tíma en þar geta hins vegar verið sveiflur á milli ára.
    Ég tek líka sérstaklega undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um nauðsyn samstarfs milli atvinnulífsins og skólakerfisins. Það held ég að sé afar mikilvægt að efla og ég skildi orð hans svo að hann væri þeirrar skoðunar. Hv. þm. nefndi hins vegar að honum þætti gæta sterkrar flokkunaráráttu, eins og hann orðaði það, í áfangaskýrslu 18 manna nefndarinnar.
    Mér fannst það koma líka fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur þar sem hún talaði um að fólki væri skipt upp eftir því hvort það færi í bóknám eða verknám. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings þegar þetta er sagt. Ég hef heyrt það áður og séð það haft eftir ýmsum að þarna sé verið að flokka fólk niður eftir getu.
    Þetta er mikill misskilningur. Það koma hins vegar fram tillögur um grundvallarbreytingar á framhaldsskólakerfinu en það er til þess að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Í dag er framhaldsskólinn þannig skipulagður að frá fyrsta degi er ætlast til þess að menn gangi til stúdentsprófs. Ég upplýsti nokkrar tölur áðan, þær þykja kannski nokkuð ótrúlegar, um hversu fáir ljúka þó stúdentsprófinu. Menn lenda nefnilega í öngstræti í þessu kerfi eins og það er í dag. Og 18 manna nefndin leggur fram hugmyndir, sem á að sjálfsögðu eftir að skoða betur, til að finna leiðir út úr þessu.
    Nefndin gerir tillögur um þrjár mismunandi námsleiðir eftir grunnskólann. Það er í fyrsta lagi að nemendur sem hafa náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi taki eins árs heildstætt stuðningsnám, sem kallað er fornám, að nemendum sem hafa náð grunnskólaprófi með lágmarkseinkunn verði gefinn kostur á eins árs almennu námi, gagnfræðanámi áður en þeir hefja nám á námsbrautum framhaldsskólans, og að nemendur sem hafa náð ákveðinni lágmarkseinkunn á grunnskólaprófi geti farið beint á námsbrautir framhaldsskólastigsins. Þarna er gerð tilraun til að setja fram tillögu um leiðir sem gefa mönnum frekari kosti en eru í dag. Miða þetta ekki allt frá byrjun við stúdentsprófið. En það er alls ekki ætlunin með þessu að fara að flokka menn í eitthvað betri og verri nemendur alls ekki. Á þetta vil ég leggja alveg sérstaka áherslu.
    Hvort svo verði tekið eitthvert mark á þessari umræðu. Ég held að það verði gert alveg burt séð hvort tillagan í því formi sem hún er núna verður samþykkt eða ekki. Mér finnst þessi umræða vera jákvæð eins og ég sagði áðan. Hún ber vott um að það sé samstaða um að það þurfi að hefja verknámið til meiri virðingar, eins og menn hafa svo sem oft talað um. Að því leyti er ég sannfærður um að þessi umræða er af hinu góða og, eins og ég segi, alveg burt séð frá því hvort tillagan verður samþykkt í óbreyttu formi eða einhverju öðru. Um það verður að sjálfsögðu rætt í hv. menntmn.