Tækniskóli Íslands

123. fundur
Mánudaginn 08. mars 1993, kl. 15:31:29 (5764)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til breytinga á lögum nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að lög þessi voru sett árið 1972. Skólakerfið og þjóðfélagið í heild hafa breyst mikið á 20 árum og hefur þróuninni verið mætt með breyttri eða nýrri löggjöf á ýmsum sviðum. Þær breytingar sem hér eru lagðar til á tækniskólalögunum eiga sér hliðstæðu í nýrri lögum um hliðstæða skóla.
    Frv. er lagt fram til að heimildir Tækniskóla Íslands til að innheimta skrásetningargjöld af nemendum verði í eðlilegu samræmi við heimildir hliðstæðra skóla í landinu, en þessar heimildir eru:
    1. Ákvæði 11. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, en þar segir m.a.: ,,Skrásetningargjöld, pappírsgjöld og önnur efnisgjöld skulu háð samþykki skólaráðs.``
    2. Ég nefni ákvæði 21. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, en þar segir m.a.: ,,Skrásetningargjöld skulu háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra.``
    3. Ákvæði 15. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, en þar segir: ,,Skrásetningargjöld skulu háð árlegu samþykki háskólanefndar og menntamálaráðuneytisins.``
    4. Ákvæði 8. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, er gera ráð fyrir innheimtu gjalda af nemendum við innritun í námsáfanga.
    Í gildandi lögum um Tækniskólann eru ekki ákvæði af því tagi sem hér hafa verið talin upp. Að auki er tekið fram í 1. gr. tækniskólalaganna að kostnað við stofnun og rekstur skólans skuli greiða úr ríkissjóði. Við setningu framangreindra laga um framhaldsskóla, Kennaraháskólann, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri hefur Alþingi ekki séð ástæðu til að einskorða fjármögnun við framlög úr ríkissjóði.
    Þegar Alþingi setti fjárlög fyrir árið 1992 var mörkuð sú stefna að skólar á háskólastigi skyldu afla sértekna, m.a. með innheimtu innritunar- og efnisgjalda að hámarki kr. 17 þús. á ári að frátöldum nemendasjóðsgjöldum. Miðað var við að tækist skólunum að lækka útgjöld eða afla annarra tekna mundu innritunar- og efnisgjöld lækka sem því næmi. Óbreyttri stefnu var fylgt af hálfu Alþingis við setningu fjárlaga þessa árs.
    Við lögfræðilega athugun sem menntmrn. hefur látið gera hafa gildandi lög um Tækniskóla Íslands verið túlkuð á þann veg að skólanum væri að óbreyttum lögum óheimilt að innheimta skrásetningargjöld af nemendum. Þess vegna er frv. þetta lagt fram og felur það í sér breytingar á tveimur greinum tækniskólalaganna:
    1. 1. gr. felur í sér að felld er niður síðari mgr. 1. gr. gildandi laga sem hljóðar svo: ,,Kostnaður við stofnun og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.``
    2. 2. gr. er um að á eftir 9. gr. gildandi laga komi ný grein og er hún svohljóðandi:
    ,,Skrásetningargjöld í sérgreinadeildum skólans skulu háð árlegu samþykki skólanefndar og menntmrn. Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga í undirbúningsdeild og raungreinadeild skólans (frumgreinadeild), svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.``
    Ég gat þess í upphafi að mikið vatn hefði runnið til sjávar síðan gildandi lög nr. 66/1972, um Tækniskóla Íslands, voru sett. Lögin eru um margt orðin úrelt og þarfnast endurskoðunar í heild sinni. Þetta frv. er eingöngu lagt fram til að eðlileg samræming náist við innheimtu skrásetningargjalda við skóla á háskólastigi. Hins vegar er full þörf á því að endurskoða tækniskólalögin í heild sinni og til þess verks skipaði ég þriggja manna nefnd á sl. hausti. Í nefndinni eiga sæti Jón Búi Guðlaugsson verkfræðingur, sem er formaður, Guðbrandur Steinþórsson, rektor Tækniskóla Íslands, og Stefán Stefánsson, deildarstjóri í menntmrn. Nefndinni er falið að skila tillögu að frv. til laga um Tækniskóla Íslands og taki mið af væntanlegu hlutverki og þróun tæknimenntunar hér á landi og í nágrannalöndunum í framtíðinni. Tekið er fram í erindisbréfi að þess sé vænst að nefndin hafi í störfum sínum samráð við kennara skólans og þá hagsmunaaðila er honum tengjast. Nefndin skal skila tillögum sínum til ráðuneytisins fyrir 1. okt. nk.

    Ég vil að hlúð verði að Tækniskólanum í framtíðinni og fagna þeirri áherslu sem lögð er á mikilvægi hans í áfangaskýrslu nefndar um mótun menntastefnu sem lögð var fram í janúarmánuði sl. og fengið hefur mjög góðar viðtökur hvarvetna í þjóðfélaginu.
    Að lokum vil ég leggja áherslu á mikilvægi þess að þetta frv. verði samþykkt nú á þessu þingi þannig að Tækniskóli Íslands standi jafnfætis hliðstæðum skólum við öflun sértekna og þurfi ekki að búa við rýrari kost en þeir.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.