Verkaskipting í ríkisstjórninni

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:45:55 (5782)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. 2. þm. Austurl. gat réttilega um hafa verið vangaveltur og getsakir í fjölmiðlum um að til stæði að gera breytingar innan ríkisstjórnar, annaðhvort innbyrðis hjá hvorum stjórnarflokki fyrir sig eða jafnvel milli flokka. Allar þessar umræður hafa verið að mestu leyti ótímabærar. Hitt er rétt að þegar til þessarar stjórnar var stofnað fyrir tæpum tveimur árum þá var þess getið af hálfu þeirra sem stjórnarmyndunarviðræðurnar leiddu af hálfu flokkanna að til álita gæti komið svo sem um mitt kjörtímabil að gera breytingar á ráðherraliði stjórnarinnar, slíkt væri ekki útilokað. Lögð var á það áhersla að flokkarnir hvor fyrir sig gæti haft um þetta nokkuð frjálsar hendur ef menn kysu að grípa til þeirra ráða sem stundum hefur verið gert annars staðar. Það má vera að slík breyting geti styrkt stöðu ríkisstjórnar, það þarf þó ekki að vera. Ég tel að þessar umræður hafi farið langt fram úr því efni sem til hafi verið varðandi þær því að milli flokkanna hafa engar formlegar umræður átt sér stað í þessum efnum. Hins vegar tel ég að vegna umræðna af þessu tagi sé nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnarflokkana að ræða þessi máli og ljúka umræðum um þau ekki seinna en helst í kringum tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar.