Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 13:59:43 (5791)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svarið. Mér fannst það skína í gegnum hans svar að það eina sem raunverulega stendur á að ganga frá til þess að nefndin geti skilað sínu verki er að menn þurfa að ná saman um það hvernig þessi þróunarsjóður sjávarútvegsins skuli verða og með hvaða hætti hann skuli starfa þrátt fyrir það að tilkynnt hafi verið í nóvember þegar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar að þetta væri eitt af þeim höfuðverkfærum sem ríkisstjórnin hefði nú til þess að tryggja stöðu sjávarútvegsins. Því vil ég í framhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðherra: Mun það verða svo þegar nefndin skilar af sér og menn hafa náð samkomulagi um það hvert hlutverk þessa þróunarsjóðs skuli vera að rekstrarafkoma sjávarútvegsins verði tryggð um leið?