Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 14:00:43 (5792)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt, það er fyrst og fremst afmarkað atriði varðandi þróunarsjóðinn sem enn stendur út af í þessari vinnu. Þróunarsjóðnum er ætlað að annast núverandi hlutverk Hagræðingarsjóðs að því er varðar úreldingu fiskiskipa en til viðbótar að greiða fyrir þróun til aukinnar hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja með úreldingu á fiskvinnslustöðvum. Þess er ekki að vænta og alls ekki að því stefnt að þróunarsjóðurinn leysi þann mikla og almenna rekstrarvanda sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir, heldur er sjóðnum ætlað að greiða fyrir þeirri hagræðingu sem fram fer í atvinnugreininni og hún þarf að takast á við á næstu missirum.