Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:18:33 (5810)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er beinlínis rangt hjá hv. þm. að það sé í fyrsta sinn sem skólagjöld séu tekin inn í fjárlög. Hins vegar er rétt að það gengur núna yfir alla skólana. Einstakir skólar á framhaldsskólastigi hafa í gegnum árin, ég veit ekki hve langt aftur, greint frá við fjárlagatillögur sínar innheimtu skólagjalda og að sjálfsögðu hefur það komið inn í fjárlög. En nú er í fyrsta sinn sem þetta er tekið inn í fjárlögin í öllu framhaldsskólakerfinu. Þetta vildi ég að kæmi fram.