Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:41:46 (5817)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru orðnar allsérstakar umræður og kannski var ástæða til að ræða það nákvæmlega hvaða skilning stjórnarandstæðingar eins og síðasti hv. þm. og fleiri leggja í þessi svokölluðu skólagjöld. Ég hef litið svo á að þau gjöld sem stundum voru nefnd nemendagjöld og innritunargjöld og alls konar gjöld og nemendur greiddu áður en þessi ríkisstjórn kom til valda hafi oft verið nefnd skólagjöld. Það sem ég var að leggja áherslu á þegar það kom til umræðu að hækka skólagjöldin í framhaldsskólunum var að við mundum ekki leggja meiri byrðar á skólafólkið í framhaldsskólunum en fyrri ríkisstjórnir hafa gert hingað til.
    Kjarni þessa máls sem nú er til umræðu fjallar ekki um það hvort verið er að hækka gjöld á nemendur í Tækniháskóla Íslands, hann fjallar ekki um það. Það hefur enginn hv. þm. bent á það að verið sé að hækka gjöld í Tækniháskóla Íslands. Í öðru lagi hefur enginn hv. þm. haldið því fram að nemendagjöldin í framhaldsskólunum í framhaldi af þeirri breytingu að skrá þau í fjárlög, hafi hækkað. Enginn haldið því fram hér í ræðu og það er athyglisvert að það hefur enginn verið með upplýsingar um slíkt. ( SvG: Hvað fer í rekstur?) Þá er spurt um það, hvað er rekstur í framhaldsskólunum? Þegar ég var í barnaskóla og gagnfræðaskóla, það eru orðin allmörg ár síðan, þá borgaði ég pappírsgjald og ég borgaði prófgjald. Kannski getur hv. þm. Svavar Gestsson upplýst þingið um það hvort það er rekstur. En ef það er ekki rekstur, hvað er það þá?