Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:53:06 (5823)


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrr í þessum umræðum í dag upplýsti hæstv. menntmrh. að það væri verið að endurskoða stöðu frumgreinadeildarnema í Tækniskólanum og viðlíka nema í skólanum á Bifröst og víðar. Ég undirstrika að mér finnst þetta vera ljós punktur í þessum umræðum. Mér finnst ánægjulegt að heyra að þarna sé hugsanlega að koma leiðrétting sem svo sannarlega er mikilvæg. Fólkið sem fer í það nám sem hér er um að ræða er yfirleitt eldra en það sem er í hinum vanalegu framhaldsskólum landsins og á hreinlega ekki skilgreiningarsamleið með því. Þess vegna vildi ég fagna því.
    Það að setja skólagjöld á þetta fólk er náttúrlega mjög vafasamur hlutur. Ég get ekki betur séð en ef það er rétt að Tækniskóli Íslands eigi að hafa 7,1 millj. í sértekjur á þessu ári, þá sé það um það bil 15 þús. kr. á hvern nemanda skólans. Auðvitað getur vel verið að Tækniskólinn geti fengið tekjur á einhvern annan hátt en innheimta þær af nemendum, en ég get ekki séð hvaða leið það er. Hvað það er sem þeir hafa til að hafa tekjur af annað en hreinlega skólagjöld?
    Mér finnst alveg einboðið að gera stóran greinarmun á þeim innritunargjöldum sem nú eru við lýði og hugsanlega 15 þús. kr. skólagjöldum til viðbótar við þau því það er greinilegt að það fé sem nú kemur inn getur aldrei farið í rekstur skólans eða orðið að sértekjum skólans nema ef það gætu verið þessar umræddu 550 kr. í byggingarsjóð sem mér finnst sérkennileg tala.
    Þegar ég sá að það voru greiddar 550 kr. í byggingarsjóð hvarflaði að mér sá hugsanlegi möguleiki að þetta væri fyrir sumarbústað nemenda eða eitthvað því um líkt, en ef þessar 550 kr. eru vísir að því að verið er að innheimta fé af nemendum í byggingu skólans sjálfs þá er þarna kominn vísir að því sem ekki má gerast, þ.e. að nemendur séu farnir að standa undir rekstri skólans. Það er sárt til þess að vita ef á að fara að herða eitthvað að nemendum einmitt í Tækniskólanum á sama tíma og við erum að hafa miklar áhyggjur af því að tækni- og iðnnám og verkmenntun almennt í landinu eigi undir högg að sækja.
    Þetta vildi ég undirstrika við ráðherra og hvetja hann til að standa góðan vörð um endurskoðunina á möguleikum nemenda á fyrstu árum þessara skóla til að fá námslán. Það er ábyggilega grundvallaratriði til þess að nemendur komi í þessa skóla.