Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:57:34 (5824)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Menningarsjóð á þskj. 475. Frv. felur í sér að menntamálaráð verður lagt niður og hlutverk nýs Menningarsjóðs skilgreint með markvissari hætti en áður var. Lögð er áhersla á að hlutverk Menningarsjóðs er að veita fjárhagslegan stuðning til útgáfu þeirra bóka á

íslenskri tungu sem verða mega til eflingar íslenskri menningu, eins og segir í 1. gr. Það er ekki gert ráð fyrir að Menningarsjóður standi sjálfur í útgáfu bóka.
    Á síðari hluta ársins 1991 varð ljóst að fjárhagserfiðleikar þeir, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs hefur átt við að stríða um nokkurt skeið, voru svo alvarlegir að í rekstrarþrot stefndi. Menntamálaráð, sem kjörið var að loknum alþingiskosningum 1991, hafði gert allt sem í valdi þess stóð til að rétta af fjárhag útgáfunnar en sýnt þótti að á árinu 1992 stefndi í þrot ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða.
    19. sept. 1991 samþykkti menntamálaráð m.a. að óska eftir því við menntmrh. að lögum um menningarsjóð og menntamálaráð, nr. 50/1957, yrði breytt og hlutverk hans skilgreint að nýju.
    Þetta væri auðvelt að skilgreina með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu. Aðrar stofnanir hefðu tekið við hlutverkum sem skilgreind eru í fyrrnefndum lögum. Þar vó þyngst að losna við útgáfuna í núverandi mynd, eins og sagði efnislega í samþykkt menntamálaráðs.
    Þessari samþykkt var komið á framfæri við menntmrh. í bréfi formanns menntamálaráðs frá 19. sept. 1991.
    2. okt. 1991 ritaði menntmrh. bréf til formanns menntamálaráðs þar sem fallist var á tillögur ráðsins og að skipaður yrði sérstakur starfshópur til að vinna að framgangi málsins.
    Af hálfu menntamálaráðs voru formaður, Bessí Jóhannsdóttir, og varaformaður, Helga Kristín Möller, tilnefndar í starfshópinn sem ráðherra skipaði 10. okt. 1991. Frá menntmrn. kom Ólafur Arnarson, aðstoðarmaður ráðherra, sem var formaður hópsins.
    Starfshópnum voru falin tvö verkefni:
    1. Endurskoða lög nr. 50/1957, um menningarsjóð og menntamálaráð.
    2. Gera verkáætlun varðandi útgáfustarfsemi Menningarsjóðs er miði að því að hún verði lögð niður á árinu 1992 og hefja framkvæmd í samráði við menntmrh.
    Í fjárlögum 1992, sem voru samþykkt á Alþingi 22. des. 1991, er í 6. gr. lið 6.13 heimild til handa fjmrh. ,,Að semja um ráðstöfun eigna og skulda Menningarsjóðs``. Þar kom fram skýr vilji Alþingis til að gera upp Bókaútgáfu Menningarsjóðs og ganga frá eignum og skuldum sjóðsins.
    Í ljósi framangreinds vann starfshópurinn verkáætlun þar sem miðað var við að ganga frá eignum og skuldum Menningarsjóðs á árinu 1992. Lokaatriðið í þeirri verkáætlun var að leggja frv. fyrir Alþingi sem fæli í sér að Bókaútgáfa Menningarsjóðs yrði lögð niður.
    Starfshópurinn hefur unnið að gerð þessa frv. Eftir fráfall Helgu Kristínar Möller tók Hlín Daníelsdóttir sæti hennar í starfshópnum, enda hafði hún tekið við varaformennsku í menntamálaráði.
    Svo kann að vera að nauðsyn hafi verið á beinni þátttöku ríkisins í útgáfu á menningarbókmenntum á þeim tíma sem lög nr. 50/1957 voru samþykkt. Ljóst má vera að engar slíkar forsendur eru fyrir hendi núna. Það sýnir metnaðarfullt starf sjálfstæðra bókaútgefenda á undanförnum árum.
    Hinu er ekki að leyna að oft og tíðum eru vönduð verk, með menningarlegt gildi, dýr í útgáfu og sölumöguleikar takmarkaðir. Því er nauðsynlegt að ríkið hafi einhver ráð til að styrkja útgáfu slíkra verka. Með þessu frv. er lagt til að ríkisvaldið geti styrkt útgáfu vandaðra verka, án þess að vera beinn aðili að útgáfu þeirra, og að þeir fjármunir sem til slíks eru ætlaðir nýtist sem best í verkefnin sjálf.
    Um einstakar greinar frv. get ég verið stuttorður. Í 1. gr. er hlutverk Menningarsjóðs skilgreint. Sjóðnum er ætlað að veita fjárhagslegan stuðning til útgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem eiga að verða til eflingar íslenskri menningu. Markmið eru skýr. Þetta er sjóður sem styrkir útgáfu bóka en stendur ekki sjálfur í bókaútgáfu.
    Í 2. gr. kemur fram breyting frá lögum nr. 50/1957. Í stað þess að Alþingi kjósi menntamálaráð er gert ráð fyrir að ráðherra skipi stjórn Menningarsjóðs. Eðlilegt er að menntmrh., sem ber stjórnskipulega ábyrgð á störfum stjórnarinnar, skipi hana. Þá er í þessari grein tryggt að stjórn Menningarsjóðs endurspegli á hverjum tíma þær áherslur sem í gildi eru í mennta- og menningarstefnu ríkisstjórnar. Það tryggir ákvæðið um að stjórnarmenn sitji ekki lengur en sá ráðherra sem skipaði þá. Gert er ráð fyrir að menntmrn. sjái stjórninni fyrir fundaraðstöðu og annarri þeirri þjónustu sem þörf er á til að hún geti gegnt hlutverki sínu.
    3. gr. er efnislega samhljóða 3. gr. laga nr. 50/1957.
    Skv. 4. gr. er ekki lengur gert ráð fyrir Menningarsjóður styðji listgreinar sem aðrir sjóðir og stofnanir hafa með að gera samkvæmt ýmsum lögum. Megináhersla er á það lögð að sjóðurinn styðji útgáfu bóka án þess þó að stunda sjálfur bókaútgáfu eins og áður hefur komið fram. Þá er veitt svigrúm til stuðnings við aðra menningarstarfsemi líkt og gert er í lögum nr. 50/1957, þó háð reglugerðarákvæðum.
    5. og 6. gr. þarfnast ekki skýringa.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að 15 millj. kr. frá uppgjöri á Bókaútgáfu Menningarsjóðs renni til Menningarsjóðs á árinu 1993.
    Með því að lög nr. 50/1957 eru felld úr gildi með þessu frv., ef að lögum verður, fellur jafnframt úr gildi skerðingarákvæði í fjárlagafrv. 1993 á mörkuðum tekjustofni Menningarsjóðs. Hér er því gert ráð fyrir að a-liður 3. gr. komi ekki til framkvæmda á árinu 1993. Áhrif þessa eru óbreytt frá því sem orðið hefði að óbreyttum lögum.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.