Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 16:17:48 (5826)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í frétt sem birtist í DV, 5. maí 1992 hygg ég muni vera, er haft eftir menntmrh., með leyfi forseta: ,,Áður en hægt er að leggja fram lagafrv. þess efnis [þ.e. að leggja niður Menningarsjóð] þarf að ganga frá eignum og uppgjöri Menningarsjóðs. Þegar því er lokið legg ég frumvarpið fram.`` Þetta er haft eftir hæstv. menntmrh. Í dag er 9. mars 1993 og þá loks hefst umræða um þetta frv. En það finnst mér ekki skipta mestu máli í þessu efni heldur hitt að ég tel að það hafi verið staðið afar sérkennilega að þessu máli. Ég er algerlega ósammála þeirri aðferð sem hér hefur verið viðhöfð að byrja á að ráðstafa eignum Menningarsjóðs og gera upp skuldir og koma síðan með frv. sem felur það í sér að leggja niður menntamálaráð og Menningarsjóð. Alþingi stendur þá frammi fyrir gerðum hlut. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir gerðum hlut. Ef í ljós kæmi að það væri alls ekki meiri hluti á Alþingi fyrir þessu frv. hvað gætum við þá gert? Það er búið að ráðstafa húseigninni. Það er búið að selja burtu útgáfuréttinn á öllum gullkálfum Menningarsjóðs. Hvar stæðum við þá? Við yrðum að byrja algerlega frá grunni. Nú getur menntmrh. að sjálfsögðu haldið því fram að hann hafi meiri hluta fyrir þessu máli en það á eftir að koma í ljós.
    Málið er það að mér finnst þetta vera að byrja á öfugum enda. Það á að sjálfsögðu að byrja á að afla sér lagaheimilda til að leggja þessa stofnun niður ef vilji er til þess. Eins og hér hefur komið fram þá hefur verið vitnað bæði í umboðsmann Alþingis og Sigurð Líndal lagaprófessor sem töldu að hér væri staðið rangt að málum. 6. gr. fjárlaga hefur ekki gildi umfram önnur lög í landinu. Ég tel að hér hafi einfaldlega verið um lagabrot að ræða af hálfu stjórnar meiri hlutans í menntamálaráði og menntmrh. Það er óhjákvæmilegt að við í menntmn. förum rækilega ofan í gang þessa máls vegna þess að eftir því sem ég þekki til er hér um alveg einstaka málsmeðferð að ræða. Maður hefur aldrei séð eða heyrt annað eins og það hvernig staðið hefur verið að þessum málum.
    Ég ætla aðeins að rekja sögu þessa máls. Það var árið 1928 sem Jónas Jónsson frá Hriflu, þáv. menntmrh., lagði fram lagafrv. á Alþingi, frv. til laga um menntamálanefnd Íslands eins og það hét þá. Með því frv. var einfaldlega verið að ná undir einn hatt ýmiss konar menningarstarfsemi og úthlutunum af hálfu ríkisins til þess að einhvers staðar væri yfirsýn yfir það mál. Eins og sjá má á núgildandi lögum hafa ýmis verkefni haldist inni hjá menntamálaráði sem löngu er búið að vísa annað og í rauninni alveg furðulegt að menn skuli ekki fyrir löngu hafa farið út í það að breyta þessum lögum. Það gildir m.a. um starfsemi Listasafns Íslands, styrki til námsmanna og annað slíkt. En það er svolítið skemmtilegt að geta þess, þó ég sé svo sem ekki í neitt sérstaklega góðu skapi út af þessu máli, að á þessum tíma naut Eimskipafélag Íslands skattfrelsis og í staðinn veitti Eimskipafélagið ungum stúdentum ókeypis far sem voru að fara til Kaupmannahafnar í háskóla. Það var afnumið með lagabreytingum árið 1956.
    Þá gerðist það að þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, lagði fram tillögur um breytingar á menntamálaráði og Menningarsjóði. Það væri afar fróðlegt fyrir alþýðuflokksmenn að lesa þá ræðu að maður tali nú ekki um hæstv. núv. menntmrh. Það kemur í ljós að þá höfðu menn aðrar hugmyndir um hlutverk ríkisins í menningarmálum en hægt er að lesa út úr stefnu núv. ríkisstjórnar. Það er augljóst að menn töldu m.a. skyldu sína þá að styðja við bakið á bókaútgáfu. Enda er það svo að það á sér stað töluvert mikil bókaútgáfa á vegum ríkisins og ríkisstofnana svo og sjálfstæðra opinberra stofnana eins og hins háa Alþingis. Við fengum í gær í hendur bók sem Alþingi hefur staðið að í samvinnu við Sögufélagið. Ég er reyndar að leggja fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um bókaútgáfu á vegum ríkisins. Það væri afar fróðlegt að fá yfirlit yfir hana. Það vaknar einmitt sú spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að það sé til samræmd bókaútgáfa á vegum ríkisins sem er reyndar svolítið annað mál en menningarleg útgáfa af því tagi sem var hjá Menningarsjóði.
    Þegar kemur að okkar dögum var alveg ljóst um leið og nýtt menntamálaráð hafði verið kosið vorið 1991 að þar væri von ýmissa tíðinda. Það fór að vísu hægt af stað og ef litið er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, er þar ekkert sem gaf til kynna hvað var yfirvofandi í menntamálaráði og hjá Menningarsjóði. En það var afar sérkennilega að þessum málum staðið af hálfu meiri hluta menntamálaráðs. Þáverandi formaður menntamálaráðs --- sem reyndar er nú aftur orðin formaður en henni var vikið frá með vantrausti en tók síðan völdin að því er sumir telja með ólöglegum hætti --- skrifaði bréf til menntmrh. sem er reyndar ódagsett en hefur verið haldið fram að hafi verið skrifað 19. sept. 1991. Formaðurinn skrifar það á sinn eigin sérmerktan pappír og það er því ekki á vegum menntamálaráðs. Ég vil benda á að það er ekki rétt með farið í grg. frv. þar sem er vitnað í þetta bréf eins og um samþykktir menntamálaráðs sé að ræða. Í grg. frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,19. sept. 1991 samþykkti menntamálaráð m.a. að óska eftir því við menntmrh. að:
    ,,Lögum um Menningarsjóð og menntamálaráð nr. 50/1957 verði breytt og hlutverk hans skilgreint að nýju.````
    Þetta er beint upp úr bréfi formannsins. Reyndar urðu miklar deilur út af fundargerð þessa fundar vegna þess að formaðurinn vildi halda því fram að eitthvað í þessa veru hefði verið samþykkt en fundarritari, Helga Kress, var á allsendis annarri skoðun, enda eru þessar fullyrðingar í algerri andstöðu við þær tillögur sem formaðurinn lagði fram í menntamálaráði 19. sept. og er getið í fundargerð og eru í mörgum liðum. Tillögur upp á þrjár blaðsíður þar sem um er að ræða endurskipulagningu á starfsemi sjóðsins. Ekki er hægt annað að skilja en að það standi mikið til í menntamálaráði og í bókaútgáfunni. Alls konar markaðsvæðing og endurskipulagning á þessari bókaútgáfu. Ég fæ því ekki betur séð en að formaðurinn hafi gert eitt með vinstri hendinni og annað með þeirri hægri. En upp úr þessu spruttu miklar deilur. Menntmrn. svaraði þessu bréfi formannsins og þá strax kom fram að menntmrn. leit svo á að þarna hefði verið um samþykkt ráðsins að ræða sem hvergi er staðfest í fundargögnum. Á grundvelli þess var settur af stað starfshópur, eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh., sem greinilega var falið það hlutverk að leggja bókaútgáfuna niður, þvert á þær uppbyggjandi tillögur sem formaðurinn hafði lagt fram á þessum fundi 19. sept.
    Í framhaldi af því hófst það starf að leggja niður starfsemina. Það hófst með þeim hætti að farið var að kanna lager bókaútgáfunnar og það var haldin útsala um áramótin 1991/1992 sem skilaði allverulegum fjármunum. Síðan var farið að undirbúa að selja útgáfurétt og ganga frá ýmsum skuldum.
    Í athugasemdum með þessu frv. segir, með leyfi forseta: ,,Á síðari hluta ársins 1991 varð ljóst að fjárhagserfiðleikar þeir, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs hefur átt við að stríða um nokkurt skeið, voru svo alvarlegir að í rekstrarþrot stefndi.`` Hér er stórt fullyrt en það kom í ljós þegar farið var að vinna í málunum og uppgjör liggur fyrir að 15 millj. kr. hagnaður er af öllu dæminu. Ef rétt hefði verið að málum staðið er ekki víst annað en það hefði verið hægt að rétta við fjárhaginn. Það var ekki betur haldið á málum en svo að Orðabók Menningarsjóð, sem hefur verið ein helsta sölubók forlagsins, var ekki til. Bækur, sem greinilega voru góðar sölubækur á jólabókamarkaði, voru prentaðar í svo litlu upplagi að þær seldust upp eins og skot og voru ekki einu sinni svo margar að það næði upp í kostnað. Þarna var náttúrlega staðið svo fráleitlega að málum að það tekur engu tali og það fólk sem þarna var í forustu, fyrst og fremst formaður ráðsins, hagaði sér með þeim hætti og tók slíkar ákvarðanir að það var alveg ljóst hvað henni gekk til. Það átti að leggja þessa útgáfu niður án þess að til þess væru nokkrar lagaheimildir.
    Fulltrúar Kvennalistans og Framsfl. í menntamálaráði voru afar ósáttar við þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð og fulltrúi Kvennalistans, Helga Kress, varð að grípa til þess ráðs að senda langan spurningalista til formannsins til þess að reyna að fá svör við því hvað væri eiginlega að gerast og hvað stæði til því ekki fengust þau svör á fundum. Að lokum leituðu þær Helga Kress og Áslaug Brynjólfsdóttir til umboðsmanns Alþingis vegna þess að þær töldu sér einfaldlega ekki fært að sinna þeim störfum sem þeim var gert af hálfu Alþingis þar sem þær voru kjörnir fulltrúar.
    Í umræðunni um þessi mál hefur gjarnan verið vísað til heimilda á fjárlögum en eins og ég nefndi áðan er auðvitað hægt að kyrkja stofnanir og starfsemi með því að veita engu fé til þeirra en það breytir ekki því að það gilda ákveðin lög um þessa starfsemi og þeim sem eru kjörnir af hálfu Alþingis til þess

að halda utan um þessar stofnanir ber auðvitað að fara eftir lögum. Í lögum um Menningarsjóð og menntamálaráð kemur fram að hlutverk þess er m.a. að annast bókaútgáfu. Þegar fólk horfir upp á það að fulltrúar meiri hlutans vinna jafnt og þétt að því að brjóta lög og leggja niður bókaútgáfuna án heimilda þá er auðvitað ekki von á öðru en að fólk búist til varnar. Það er afar merkilegt í þessu máli að fylgjast með og velta fyrir sér þætti hæstv. menntmrh. Mér er það minnisstætt að hæstv. viðskrh. hefur haft við orð þegar menn hafa borið undir hann ákvarðanir bankaráða, t.d. Landsbankans, að hann skiptir sér ekki af því sem þar fer fram. Það séu stjórnir sem eru kjörnar af Alþingi og hann segi þeim ekki fyrir verkum. En það gildir nú eitthvað annað um menntmrh. þegar menntamálaráð er annars vegar því það verður ekki betur séð en að meiri hlutinn í menntamálaráði hafi fyrst og fremst þjónað skipunum menntmrh. og ekki farið að lögum. Formaður ráðsins lagði fram tillögu á fundi í menntamálaráði sem gekk út á það að menntamálaráð samþykkti þvert á gildandi lög að leggja niður bókaútgáfuna. Það leiddi til þess að það var lýst yfir vantrausti á formanninn, einfaldlega vegna þess að formaðurinn lagði fram tillögu sem aðrir í ráðinu, meiri hluti ráðsins á þeim tíma, töldu ganga gegn lögum.
    Þessi gangur mála varð til þess að það var kjörin ný stjórn í menntamálaráði og varð af mikill bægslagangur en mér er spurn: Hvað vildi hinn nýi meiri hluti? Hver var stefna hans? Það var ekki verið að kynna sér það, menntmrh. var ekki að kynna sér það hver sú stefna var. Það urðu umræður um þingsköp þegar Alþfl. kaus nýjan fulltrúa í menntamálaráð vegna þess að varamaðurinn sem tók sæti aðalmanns vildi ekki hlýða þeim skipunum að samþykkja tillögur sem gengu á móti gildandi lögum. Þá urðu umræður og það kom greinilega fram í þeim að það væri nánast alveg sama hvað væri gert. Það átti bara að vaða áfram og menn höfðu ekkert kynnt sér hvað hinn nýi meiri hluti vildi gera. Fékk Alþingi tækifæri til þess að kynna sér það hvað þeirra kjörnu fulltrúar ætluðu að gera þarna --- hinn nýi meiri hluti? Nei. Það var bara kjörinn nýr fulltrúi og síðan var byrjað að pressa og pressa til þess að reyna að ná völdum á nýjan leik enda var, að því er ég best veit, búið að segja upp starfsfólkinu og allt að komast í eindaga af hálfu meiri hlutans, en hinn nýi meiri hluti fékk ekki einu sinni tækifæri til þess að kynna stefnu sína hvað þá annað. En eins og menn muna var síðan boðað til fundar í byrjun ágústmánaðar 1992 og, að því er margir telja, algjörlega á ólöglegan hátt var formaðurinn, sem hafði verið lýst vantrausti á, kjörinn á nýjan leik. Formaður menntamálaráðs sem hafði verið settur af vegna ólöglegrar tillögu var kjörinn að nýju.
    Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru afar sérkennileg. Það var gagnrýnt í blöðum að þáv. formaður Helga Kress væri að þrjóskast við og vildi ekki kalla saman fund og hún sleit fundi eftir að það hafði verið lögð fram vantrauststillaga á hana. En fyrir hvað var það vantraust? Út á hvað gekk það? Algjörlega órökstutt. Það er ekki hægt að lýsa vantrausti á fólk sem er kjörið af Alþingi fyrir ekki neitt, fyrir það að reyna að sjá til þess að lögum sé framfylgt. Þetta eru afar sérkennileg vinnubrögð og þessari ríkisstjórn til háborinnar skammar. Við sem sitjum á hinu háa Alþingi og erum að kjósa í stjórnir og ráð, og erum auðvitað að fá fólk úr okkar röðum til þess að taka sæti í slíkum stjórnum, hljótum að velta því fyrir okkur þegar fólk lendir í vinnubrögðum af þessu tagi, hvað maður á að segja við þá sem við erum að biðja um að taka sæti í stjórnum. Hvað á maður að segja? Viltu gjöra svo vel að búa þig undir það að það verði framið lagabrot? Viltu gjöra svo vel að vera viðbúinn því að það sé stöðugt verið að beita bolabrögðum? Fólk á auðvitað að fara að lögum. Ef það er stefnan að leggja niður menntamálaráð og Menningarsjóð þá á auðvitað að byrja á því að breyta lögunum. Ég skil ekki vinnubrögð af þessu tagi.
    En það sem gert hefur verið síðan er að það er búið að selja útgáfuréttinn að bókum Menningarsjóðs sem sumar hverjar eru algjörar gullnámur, m.a. Orðabók Menningarsjóðs. Það leið auðvitað ekki á löngu þar til hún birtist á markaðnum á nýjan leik enda gulltryggð söluvara. Það var seldur upp lagerinn og síðan var húsinu ráðstafað til Listasafns Íslands. Ég spyr: Með hvaða heimild var það gert? Ég efast um að þar sé löglega staðið að verki þó að það standi í 6. gr. fjárlaga að fjmrh. sé heimilt að semja um ráðstöfun skulda og eigna menntamálaráðs og Menningarsjóðs. Ég efast um að það sé heimilt vegna þess að ef ég hef séð það rétt út úr þeim gögnum sem ég hef farið í gegnum þá var á sínum tíma stofnaður sérstakur sjóður sem er reyndar að finna ákvæði um í núgildandi lögum og hann var notaður til þess að kaupa þetta hús. Húsið --- ,,Næpan`` eins og það hefur verið kallað --- bústaður Magnúsar Stephensens landshöfðingja, var ótvírætt eign menntamálaráðs. Stjórn menntamálaráðs er kjörin af Alþingi en ég er ekki það vel að mér í stjórnskipunarrétti að ég geti áttað mig á því hvort þarna er rétt að málum staðið, hvort menntmrn. hefur einfaldlega heimild til þess að ráðstafa eignunum með þessum hætti, en það þurfum við svo sannarlega að kanna í menntmn. Þetta er býsna flókið fyrirbæri.
    En það vakna mjög margar spurningar í framhaldi af þessu máli og þeim makalausu vinnubrögðum sem við höfum horft upp á og fyrsta spurningin er auðvitað: Hver er menningarstefna þessarar ríkisstjórnar? Hvaða stefnu les maður út úr aðgerðum af þessu tagi?
    Eins og ég nefndi áðan þá á sér stað töluvert mikil bókaútgáfa á vegum ríkisins og ríkisstofnana og ef við horfum á skólana í því samhengi þá er einmitt spurningin hvort það hefði ekki verið nær að huga að því að sameina þessa bókaútgáfu annarri bókaútgáfu og búa til eins konar samvinnustofnun um rekstur bókaútgáfu. Ég vildi mjög gjarnan sjá fyrir mér einhvers konar háskólaforlag þar sem ríkið kæmi inn í, því eins og ég nefndi fyrr þá eru gefin út ýmiss konar menningarverk sem ríkið stendur að og í rauninni enginn annar hefur bolmagn til. Ég get nefnt sem dæmi að ýmsar bækur sem teljast til menningarverðmæta seljast afar hægt og bítandi og geta reynst forlögum úti á hinum frjálsa markaði býsna þung í skauti. Það á kannski ekki beinlínis erindi inn í þessa umræðu en ég get nefnt t.d. Sögu Reykjavíkur. Eitt bindi af fimm kom út fyrir jólin 1991, annað bindi er tilbúið til útgáfu, en það er svo hæg sala í þessari bók og staðan það slæm að það verður ekki annað séð en að bókaútgáfan hafi varla bolmagn til þess að halda þessu áfram í bili. Þó er Reykjavíkurborg þarna á bak við sem er nú enginn smá aðili. Það er að vísu engin hætta á því að þessi útgáfa haldi ekki áfram, þetta tekur sinn tíma, en það sýnir að mínum dómi að þörf er á forlagi sem ríkið stendur á bak við og ekki síst þarf að efla útgáfu ýmiss konar námsbóka og bóka sem tengjast háskólanum. Í því sambandi vil ég rifja það upp að háskólinn var í samvinnu við Bókaútgáfu Menningarsjóðs og ýmsar deildir háskólans gáfu út ritraðir í samvinnu við Bókaútgáfu Menningarsjóðs. Það voru þrjár ritraðir, ein í samvinnu við Sagnfræðistofnun og tvær í samvinnu við Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.
    Það má kannski segja að Bókaútgáfa Menningarsjóðs hafi ekki endilega átt að vera í samkeppni við almennar útgáfur á bókmenntaverkum þó að það hafi reyndar verið gefin út mjög mörg rit sem aðrir treystu sér ekki til að gefa út eða höfðu ekki áhuga á og það kom í ljós þegar lagerinn var opnaður að það var mikill áhugi á þessum bókum. Mikill áhugi á því sem þar var að finna. Að mínum dómi hefðu menn auðvitað átt að setjast við það á sínum tíma að skoða möguleika Bókaútgáfu Menningarsjóðs, huga að breyttu formi, huga að samvinnu við háskólann í stað þess að ráðast á þessa stofnun með offorsi og látum eins og er einkenni á vinnubrögðum þessarar ríkisstjórnar. Menn hefðu átt að kanna grundvöllinn.
    Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá gáfu tillögur formanns menntamálaráðs ekki annað til kynna en að það ætti að kanna ýmsa möguleika en síðan var farið af stað með það verk að leggja þetta allt saman niður og niðurstaðan er það frv. sem hér liggur fyrir.
    Ég spurði áðan um það hver væri menningarstefna ríkisins. Að mínum dómi þá gæti það vel verið hlutverk menntamálaráðs að móta menningarstefnu. Hér er að mínum dómi afar sundurleit menningarstefna, ef nokkur, það er helst að menn snúi sér að byggingu einstakra stofnana eða leikhúsa eða einhverjum ákveðnum verkefnum sem menn eru með og síðan er fé deilt út um hvippinn og hvappinn, mest í gegnum ráðuneytið og fjárlögin, en ég spyr: Væri ekki full ástæða til þess að hér væri til fyrirbæri sem héti menntamálaráð og hefði það hlutverk að móta menningarstefnu? Það þyrfti ekki endilega að vera í bókaútgáfu eða styrkveitingum eða öðru slíku heldur hreinlega að það sé einhver vettvangur þar sem menningarstefna er mótuð, að sjálfsögðu í samráði við Alþingi. Það rifjar upp fyrir mér að hér fyrir skömmu var í heimsókn norska menntamálanefndin sem hingað var komin til að kynna sér menningarstefnu Íslendinga og menningarlíf. Það var vegna þess að nefndin hafði til umfjöllunar tillögu um menningarstefnu norska þingsins og norsku ríkisstjórnarinnar á næstu árum. En hér ríkir að mínum dómi algjört stefnuleysi í menningarmálum. Ég fæ ekki séð að þessi ríkisstjórn sem nú situr hafi neina sérstaka menningarstefnu.
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að víkja að sjálfu frv. eftir að hafa farið í gegnum málið. En eins og hér hefur komið fram þá finnst mér að hér hafi verið afar sérkennilega að verki staðið og ég er algjörlega ósammála því að stilla Alþingi upp á þann hátt sem hér er gert frammi fyrir gerðum hlut. Við hljótum að spyrja hvað verður um ýmis þau verkefni sem Menningarsjóður hafði á sinni könnu og þar má t.d. nefna almanak Þjóðvinafélagsins. Getur menntmrh. upplýst það hvort það hefur verið samið um útgáfu þess með einhverjum hætti?
    Ég veit ekki til þess að háskólinn sé búinn að finna lausn á því hvernig hann hagar sínum útgáfumálum og ég vil gjarnan fá að heyra álit menntmrh. á þeirri hugmynd að það beri að stuðla að myndun eins konar háskólaforlags í samvinnu ýmissa aðila.
    Ef ég vík að frv. sjálfu þá er auðvitað um mikla breytingu að ræða. Hér er verið að leggja menntamálaráð niður en í staðinn á að stofna lítinn sjóð sem á að stuðla að útgáfu bóka, eins og hér segir, með leyfi forseta: ,, . . .  útgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem verða mega til eflingar íslenskri menningu.``
    Ef við hugsum til gildandi laga þá er auðvitað verið að þrengja mjög verkefni Menningarsjóðs og ég get ekki annað en lýst áhyggjum mínum yfir því hvað verða muni um ýmsa fræðimenn og þá ekki síst það sem við höfum kallað alþýðufræðimenn sem hafa haft aðgang að Menningarsjóði og hafa fengið styrki frá honum til þess að vinna sín verk. Ég dreg það mjög í efa að sú sjóðstjórn sem hér á að koma á fót líti á það sem sitt hlutverk að styðja slíka alþýðufræðara eða fræðimenn. En þeir hafa margir haft margt mjög merkilegt til málanna að leggja.
    Þá vil ég taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um stjórn þessa sjóðs og mér þykir afar furðulegt að vera að blanda því inn í Menningarsjóð af þessu tagi að það sé skipt um stjórnarmenn þó skipt sé um ráðherra. Mér finnst greinar af þessu tagi eða setningar af þessu tagi eigi ekki að sjást í frv. um menningarmál. Bókaútgáfa eða útgáfa á merkum verkum hlýtur að vera hafin yfir það hvaða ráðherra situr hverju sinni. Mér finnst þetta algjörlega út í hött og reyndar svo sem í mörgum fleiri tilvikum. Hér er um það að ræða að í stað þess að Alþingi kjósi menntamálaráð þá eiga þarna að taka sæti þrír fulltrúar sem menntmrh. skipar til tveggja ára í senn og skipar einn þeirra sem formann stjórnar. Það er sem sagt um að ræða einhvers konar verkfæri menntmrh. þó ég sé ekki þar með að segja að hann fari að segja þeim fyrir verkum en að fenginni reynslu af samskiptum hæstv. menntmrh. við núverandi menntamálaráð þá veit ég svo sem ekki hvers er að vænta.
    Þá get ég tekið undir það að fjáröflunin er afar ótraustvekjandi og þegar maður hefur horft upp

á það hér ár eftir ár að upphæðirnar sem áttu að renna til Menningarsjóðs hafa verið skertar ár eftir ár, þá veit ég ekki hvað ætti að tryggja það að þessi skemmtanaskattur renni óskiptur í þennan sjóð. Samkvæmt því sem fram kemur í frv., þá ættu það að vera 12 millj. á árinu 1993. Ef ég man rétt, þá var það mjög svipuð upphæð sem hefði átt að renna í sjóðinn á síðasta ári, en hún var skorin niður um helming og strikuð út í fjárlögum þessa árs. Og hvað þá um fjárveitingar á fjárlögum. Þetta eru auðvitað mjög ótryggar upphæðir.
    Ég get ekki látið hjá líða að benda á villu sem er hér í frv. Það er afar klaufaleg villa, en við ættum að minnast þess eftir þær umræður sem hér urðu á næturþeli um fulltrúa Alþfl. sem hér er kölluð Hlín Agnarsdóttir hér í frv. en hún er Daníelsdóttir og ég harma að það sé verið að draga Hlín Agnarsdóttur hér inn í umræður af þessu tagi. Hún hefur verið ofarlega í huga þess sem ritaði greinargerðina af einhverjum ástæðum, en þetta er náttúrlega slæmur prófarkalestur sem hér er á ferð.
    Ég ætla aðeins að víkja hér að enn einu sem fram kemur í grg. og sem varðar einmitt þau ummæli að ekki sé nú þörf á því að ríkið standi að bókaútgáfu. Það segir hér á bls. 3 í greinargerðinni, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst má vera að engar slíkar forsendur eru fyrir hendi núna [að ríkið standi að bókaútgáfu], það sýnir metnaðarfullt starf sjálfstæðra bókaútgefenda á undanförnum árum.``
    Hér er mikið fullyrt og ég get tekið undir það að við eigum metnaðarfullar og góðar bókaútgáfur, en eftir að ríkisstjórnin, og þar með talinn hæstv. menntmrh., hefur nú staðið að því að setja 14% virðisaukaskatt á bókaútgáfu í landinu, þá spyr maður sig nú, hvað verður eftir af þeim þegar upp verður staðið? Hverjir verða hér til þess að annast metnaðarfulla útgáfu, sem m.a. kemur í staðinn fyrir þau merku verk sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs hefur staðið að? Hér rekur sig nú hvað á annars horn.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Samkvæmt því sem fram kemur hér í frv. er nú býsna óljóst hvað þessi sjóður mun hafa til ráðstöfunar þegar og ef til kastanna kemur. Það eru 15 millj. kr. a.m.k. í afgang frá Bókaútgáfu Menningarsjóðs og hafa þá allar skuldir verið gerðar upp að því er best verður skilið og síðan er auðvitað algerlega óljóst hvert framlagið verður af hálfu ríkisins. Hugsanlega er verið að tala þarna um einhverjar 25 millj. og það auðvitað er góðra gjalda vert ef það er veitt í styrki en það dugar auðvitað ekki langt.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka það sem ég sagði hér áður að ég tel að við þurfum að athuga þetta mál mjög rækilega í hv. menntmn. og fara ofan í það hvernig hér hefur verið að málum staðið. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig ráðherrar stilla Alþingi upp eins og þetta mál ber með sér, þannig að Alþingi á fárra kosta völ og ég hef miklar áhyggjur af því hvernig ráðherra og ráðuneyti í þessu tilviki kemur fram við kjörna fulltrúa Alþingis. Ég tel þetta vera mjög af hinu vonda og ég tel að við í menntmn. þurfum að skoða ýmsa möguleika varðandi niðurstöðu þessa máls. Það er ljóst að það er búið að leggja bókaútgáfuna niður, það er búið að ráðstafa eignunum hvort sem þar er nú löglega staðið að málum eða ekki. Ég get ekki með nokkru móti lýst yfir stuðningi við þetta frv. eins og málum háttar, en ég tel að við eigum að snúa okkur að því hér á hinu háa Alþingi að móta menningarstefnu og að ræða það af mikilli alvöru hvert hlutverk ríkisins eigi að vera í menningunni. Það er öllum ljóst að margt það sem tilheyrir okkar menningarlífi er þannig vaxið að það væri ekki til ef stuðningur ríkisins kæmi ekki þar að. Við verðum að vera raunsæ og muna það að við lifum í afar litlu samfélagi og ef við ætlum að stuðla hér að áframhaldandi bókmenningu og mikilvægum útgáfum, bæði á erlendum og innlendum bókmenntaverkum, þá kann að vera nauðsynlegt að ríkið komi þar að málum. Hvort sjóður af þessu tagi leysir þann vanda, það ætla ég ekki að fullyrða um en mér finnst þetta allt lýsa því að hér vantar menningarstefnu og heildarstefnumótun og að hér sé um að ræða vinnubrögð sem ættu ekki að sjást.