Menningarsjóður

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 16:57:13 (5827)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hér hafa hv. tveir síðustu ræðumenn gagnrýnt sérstaklega vinnubrögðin í kringum þennan málatilbúnað allan og ég hlýt að fara nokkrum orðum þá sagnfræði sem hér var borin á borð, sérstaklega af hv. síðari ræðumanninum, hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, ( Gripið fram í: Sem er sagnfræðingur.) sem er sagnfræðingur, já, en mér þykir satt að segja mun verra þegar sagnfræðingur fer svona með söguna eins og hér var gert og þarf að eyða kannski nokkrum orðum í þessa sögu eins og hún var sögð hér áðan.
    Fyrst nokkur orð um ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem hafði ýmislegt að athuga við vinnubrögðin sérstaklega, en tók þó undir ákvæði 1. gr. frv. Það er þakkarvert og í lokin sagði hv. þm. að hún mundi vilja skoða þetta mál með jákvæðu hugarfari og það þykir mér líka virðingarvert og svo sem ekkert við öðru að búast heldur en það yrði gert. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir eins og raunar Kristín Ástgeirsdóttir talaði hér nokkuð um fyrirhugaðar tekjur Menningarsjóðs og þótti heldur ómerkilega að því staðið þar sem um væri að ræða skemmtanaskattinn sem er innheimtur samkvæmt nokkuð gömlum lögum eða frá því 1970 held ég sé rétt. Ákvæðin um tekjur þessa nýja Menningarsjóðs eru efnislega eins og er í gildandi lögum um menntamálaráð og Menningarsjóð, þ.e. gjald af aðgöngumiðum kvikmyndasýningum, skuggamyndasýningum og dansleikjum samkvæmt 8. gr. laga nr. 58/1970, um skemmtanaskatt. Það þótti eðlilegt að halda þessum ákvæðum þótt menn séu út af fyrir sig sammála um það að lögin um skemmtanaskatt þarfnist endurskoðunar, en meðan þau hafa ekki verið endurskoðuð sýndist rétt að hafa þennan sama hátt

á og gilt hefur. Og svo í öðru lagi að þarna kæmi til fjárveiting sem veitt er í fjárlögum hverju sinni. Um það get ég að sjálfsögðu ekki spáð frekar en aðrir hver væntanleg framlög á fjárlögum kunna að verða til þessa sjóðs.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir talaði líka um að þessi staða í Menningarsjóði hefði aldrei komið upp ef tekjur hefðu skilað sér eins og þær hefðu átt að gera ef ekki hefði komið til skerðing á þessum tekjustofni eins og svo mörgum öðrum og menn þekkja og ég þarf ekki að rekja. Stjórnum eða menntamálaráði á hverjum tíma átti svo sem að vera kunnugt úr hvaða fjármagni var að spila og það hefur verið því miður svo í gegnum árin að menntamálaráð hefur ekki gætt þessi nægilega að fara í sínum fjármálaumsvifum eftir því sem fjárlög ákváðu. Þess vegna var svo komið sem raun ber vitni að þarna stefndi í algert þrot.
    Það er gagnrýnt af báðum hv. ræðumönnum ákvæðið um skipan stjórnarinnar þar sem talað er um að menntmrh. skuli skipa til tveggja ára í senn þrjá fulltrúa í stjórn Menningarsjóðs. Ég veit vel að um þetta má deila. Þetta er þó ekkert einsdæmi. Það er skipað í ýmsar stjórnir, nefndir og ráð af viðkomandi ráðherra og það þekkjast líka dæmi þess þó að það sé kannski ekki eins algengt að viðkomandi stjórnir sitja þó ekki lengur en viðkomandi ráðherra í embætti. Ég nefni sem dæmi tiltölulega nýja breytingu á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það var komið áður í lögum um lánasjóðinn heldur en hin nýju lög sem sett voru í fyrra, að þeir stjórnarmenn sem ráðherra skipar sitja ekki lengur en viðkomandi ráðherra situr.
    Ég nefndi í ræðu minni nokkur rök fyrir þessu ákvæði, að það væri tryggt að stjórn Menningarsjóðs endurspegli á hverjum tíma þær áherslur sem í gildi eru í mennta- og menningarstefnu viðkomandi ríkisstjórnar. Það tryggir einmitt ákvæðið um að stjórnarmenn sitji ekki lengur en sá ráðherra sem skipaði þá.
    Það voru svo nokkur atriði í ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur sem ég þarf að fara aðeins í gegnum og ég satt að segja undrast það hvað mér þótti vera mikil geðvonska einhvern veginn í þessari sögu allri hjá hv. þm. ( KÁ: Já, það var það.) Já, var það ekki það? Það var geðvonska, var það ekki? ( KÁ: Já.) Já, ég hef þá ekki neitt misskilið það. En ég er satt að segja mjög hissa á þessari sögu allri sem hv. þm. hérna rakti. Ég er afskaplega undrandi á þessu. Sannleikurinn er sá að allur ferill þessa máls er bara mjög eðlilegur. Þetta hefst þannig að menntmrh. fær bréf frá formanni menntamálaráðs. Ég kann ekki þessa sögu eins og hv. þm. rakti hana um að það hefði ekki verið samþykkt menntamálaráðs á bak við bréfið sem ég fékk. Ég kann bara ekki þá sögu. Þetta er eitthvað sem ég er að heyra í fyrsta skiptið núna. En alla vega fékk ég bréf frá formanni menntamálaráðs. Þannig kemur þetta inn á borð til mín 19. sept. 1991. Ég svara því bréfi 2. okt. 1991 og fellst á meginefnið. Síðan skrifa ég bréf aftur 10. okt. 1991, þar sem ég skipa starfshópinn og fel honum ákveðið viðfangsefni, þ.e. að endurskoða lögin um Menningarsjóð og menntamálaráð og í öðru lagi að gera verkáætlun varðandi útgáfustarfsemi Menningarsjóðs er miði að því að hún verði lögð niður á árinu 1992 og hefja framkvæmd í samráði við menntmrh. Síðan gerist það að Alþingi lætur í ljós alveg ótvíræðan vilja sinn með ákvæðinu í 6. gr. fjárlaga 1992, alveg ótvíræðan vilja, þ.e. fjmrh. fær heimild til þess að eins og segir í textanum í grein 6.13 að semja um ráðstöfun eigna og skulda Menningarsjóðs. Þarna er í raun og veru komin alveg fram skýr vilji Alþingis. Þetta samþykkti Alþingi.
    Síðan er sett fram ákveðin verkáætlun og unnið eftir henni á sl. ári, 1992, Menningarsjóður gerður upp og lokaskrefið var alveg frá byrjun hugsað þannig að lögin yrðu numin úr gildi eða sett ný lög. Um þetta höfum við að vísu deilt, það veit ég og sú deila hefur komið upp áður. Hvort það hefði átt að vera fyrsta skrefið eða hið síðasta. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að hafa það síðasta skrefið að fella lögin úr gildi.
    Ég nefni aðeins eitt. Hvað er eðlilegra heldur en lögin gildi á meðan unnið er að þessu uppgjöri á eignum Menningarsjóðs, m.a. með tilliti til starfsfólksins sem vann að þessu? Það var bara alveg sjálfsagður hlutur. Ég minnist þess þegar var verið að ræða hér í fyrra um málefni Skipaútgerðar ríkisins sem ákveðið hafði verið að leggja niður. Þá kom allt önnur skoðun upp hjá einum stjórnarandstæðingi. Ég geri enga kröfu til þess að stjórnarandstaðan fallist öll á skoðanir þess þingmanns. Það var Ólafur Þ. Þórðarson. Ég má ekki gera kröfu til . . .   ( Gripið fram í: Hann er býsna góður talsmaður.) Já, hann um það, en hann er bara allt annarrar skoðunar heldur en hv. þm. sem hér hafa talað í dag, allt annarrar. Hann taldi það bara tímaeyðslu að vera að ræða um að fella niður lögin um Skipaútgerð ríkisins vegna þess að það væri búið að ákveða þetta allt saman. (Gripið fram í.) Það var nú ekkert annað. Svona fer þetta stundum svolítið á skjön, álit stjórnarandstöðunnar, en það er ekkert óeðlilegt. Ég er alls ekki að finna að því. Enginn má skilja orð mín svo og alls ekki að stjórnarandstæðingar séu allir á sama máli og Ólafur Þ. Þórðarson, með fullri virðingu fyrir honum og hans skoðunum.
    Þetta var ferill málsins og hann var alveg eðlilegur, þessi ferill sem ég hef hér rakið. Ég sé þess vegna enga ástæðu fyrir hv. menntmn. þó að ég ætli ekkert að fara að segja henni fyrir verkum, enda yrði sjálfsagt ekkert farið eftir því. En fara að eyða tíma í það að fara eitthvað rækilega ofan í gang þessa máls, þetta liggur allt saman alveg ljóst fyrir, alveg ljóst. ( Gripið fram í: Löglega staðið að þessu öllu.) Já, já, það er löglega staðið að þessu öllu saman. Það er ekki minnsti vafi með fullri virðingu líka fyrir lagaþekkingu Sigurðar Líndals og fleiri mikilhæfra lögfræðinga, þá hefur fyllilega verið löglega staðið að þessu máli, það fullyrði ég.
    Varðandi það að ég hafi ekki haft fyrir því að vera að kynna mér stefnu hins nýja meiri hluta sem

myndaðist í menntamálaráði í fyrra. Ég held að það hafi ekkert farið á milli mála hvað sá nýi meiri hluti vildi. Hann vildi halda áfram bókaútgáfunni, en það var bara alveg þvert á vilja Alþingis. Og er það virkilega svo, er það skoðun t.d. Kvennalistans að tveir fulltrúar af þremur í menntamálaráði eigi að geta gengið á svig við vilja Alþingis? Er það virkilega svo, þótt þessir fulltrúar í menntamálaráði séu kjörnir af Alþingi? Eiga þeir að hafa vald til þess að ganga gegn yfirlýstum vilja Alþingis og ákvörðunum ríkisstjórnar? Er þetta ekki dálítið einkennilegur flötur á lýðræðinu? Ég spyr. Þetta er svona til umhugsunar fyrir hv. þm. hvort þetta sé virkilega skoðun þingmannsins að svona geti tveir menn gengið yfir vilja Alþingis. Er það virkilega svo? Ég bíð eftir svari.
    Það var síðan spurt með hvaða heimild Landshöfðingjahúsið hefði verið afhent Listasafni og látið að því liggja að það eins og annað væri gert með ólögmætum hætti. Það var gert með fullkomlega lögmætum hætti. Fjmrh. hafði heimildina til þess að semja um ráðstöfun eigna Menningarsjóðs. Landshöfðingjahúsið gekk til Fasteigna ríkisins í þessu uppgjöri öllu, til Fasteigna ríkisins og það voru Fasteignir ríkisins sem ráðstöfuðu húsinu til Listasafns Íslands, að vísu samkvæmt tillögu menntmrn. því að það var sannfæring okkar í menntmrn. að þetta merkilega hús væri mjög vel komið undir umsjón Listasafns Íslands. Um það varð fullt samkomulag við Fasteignir ríkisins að Listasafnið fengi húsið til afnota og Listasafninu var vissulega mjög brýn þörf á þessu húsnæði. Það hafði í mörg ár, eins og þingmönnum er vafalaust kunnugt, reynt að fá keyptar einhverjar húseignir í næsta nágrenni við sig og um tíma, í mörg ár reyndar, voru heimildarákvæði í fjárlögum um að Listasafninu væri heimilt að kaupa húseignir en þær hafa einfaldlega ekki verið falar í næsta nágrenni. Þess vegna held ég að það sé hafið yfir alla gagnrýni að Listasafnið hafi fengið þetta hús til afnota og það var gert með fullkomlega lögmætum hætti.
    Það er sjálfsagt ágreiningur á milli okkar um það hvort ríkið eigi að vera í bókaútgáfu beint eða ekki. Það er mín skoðun og skoðun ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi ekki að standa í bókaútgáfu beint eins og það hefur gert í gegnum Menningarsjóð. Hins vegar viðurkennum við að það beri að styðja við merkilega bókaútgáfu í landinu, útgáfu bóka sem m.a. seljast hægt og eru dýrar. Ríkið hefur raunverulega gert þetta oftar en einu sinni og áreiðanlega oftar en tvisvar þó ég hafi ekki dæmi á takteinum. Ég man þó eftir einu nýlegu dæmi. Það var ákvörðun fyrrv. ríkisstjórnar að styðja við útgáfu íslensku alfræðibókarinnar, sem er mjög merkilegt framtak, með því að kaupa 200 eintök af bókinni. Það kom í hlut þessarar ríkisstjórnar að standa við það loforð og við vorum alveg sammála því. Þetta er eitt dæmi af áreiðanlega mörgum sem eru til um stuðning ríkisins við merkilega útgáfustarfsemi. Mér þykir miklu auðveldara að veita slíkan stuðning með beinum fjárframlögum, í þessu tilviki gegnum Menningarsjóð þegar Menningarsjóður er hættur að standa sjálfur í bókaútgáfu. Þá mundi það eðlilega gerast þannig í gegnum Menningarsjóðinn en ekki í gegnum menntmrn. eins og það hefur oft gert og áreiðanlega oftast gerst þannig.
    Ég ætla ekki að fara út í neinar umræður við hv. þm. um það hvort ríki eigi að standa í bókaútgáfu eða ekki. Mér finnst að það eigi ekki að gera það og ekki að efla slíka útgáfu á nokkurn hátt. Háskólaforlagið er til og er undir stjórn háskólans og er þar ágætlega komið.
    Ég veit ekki hvort það eru mikið fleiri atriði sem ég þarf að koma inn á. Ég held ég megi segja vegna spurningarinnar um hvað yrði um útgáfu á almanaki Þjóðvinafélagsins að um það hafi þegar verið samið að Sögufélagið yfirtaki þá útgáfu. Ég veit að það óskaði eftir því og ég held að það hafi verið samið um það í sambandi við ráðstöfun á eignum Menningarsjóðs.
    Hv. þm. var að velta því fyrir sér hvað yrði um fræðimannastyrki. Mér er satt að segja ókunnugt um hvað menntamálaráð var þar umfangsmikið. Ég veit að fræðimannastyrkir hafa verið veittir beint á fjárlögum og m.a. á safnliðum til menntmrn. og með ákveðinni viljayfirlýsingu til menntmrn. um hvernig þeim styrkjum yrði ráðstafað. Ég sé ekki neina sérstaka breytingu á því. En eins og ég segi veit ég ekki hvað menntamálaráð veitti af slíkum styrkjum. Ég hef það ekki á takteinum.
    Mér þykir leitt með þessa prentvillu. Hún verður að sjálfsögðu leiðrétt á nafni Hlínar Daníelsdóttur.
    Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Mér þykir satt að segja heldur leitt að þetta frv. skuli fá heldur neikvæðar undirtektir. Ég held að það sé verið að hreyfa merku máli, að eiga þennan sjóð, sem vonandi verður sem stærstur, til þess að styðja útgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem verða mega til eflingar íslenskri menningu, eins og segir í 1. gr. frv.