Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 19:02:33 (5835)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta mál var kynnt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og rætt talsvert mikið þá þannig að ég tel ástæðulaust nema sérstakt tilefni gefist til að fara mjög mörgum orðum um þetta frv.
    Í fjárlagafrv. var boðað og afgreitt í áætlun um tekjur Ríkisspítala við fjárlagaafgreiðsluna að

Þvottahúsi Ríkisspítala yrði breytt í hlutafélag í eigu Ríkisspítalanna og síðar mundu Ríkisspítalar selja hluta af því hlutafé á frjálsum markaði til tekjuöflunar.
    Þvottahús Ríkisspítalanna hefur verið starfrækt um árabil. Það skiptist í þvottadeild og saumastofu. Þvottadeildin annast þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala, Borgarspítala og að ég hygg flestallar einkastofnanir sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa slíkrar þjónustu með. Einnig eru líkur á að þvottahúsið taki innan skamms við fleiri viðfangsefnum en afkastageta þar er mjög mikil umfram það sem nú á sér stað.
    Árið 1990 voru 1.225 tonn af þvotti þvegin í þvottahúsinu og tekjur voru liðlega 111 millj. kr. Þvottahús Ríkisspítalanna er til húsa að Tunguhálsi 2, Reykjavík. Hluti hússins var byggður 1967 og er hann notaður af þvottahúsinu. Stærð húshlutans er 2.162 m 2 . Brunabótamat húshlutans er 165 millj. kr., fasteignamat er 48,6 millj. kr. og áætlað söluverð 88 millj. kr.
    Yngri hluti hússins var byggður 1975 og er hann að mestu notaður af birgðastöð og sótthreinsunardeild. Stærð yngri hlutans er 1.505 m 2 . Brunabótamat þess húshluta er 105 millj. kr. og fasteignamat 50,5 millj. kr. Ekki liggur fyrir mat á tækjum þvottahússins. Sum eru ný en önnur allt að 25 ára gömul. Lauslega má áætla að verð tækja sé um 100 millj. kr.
    Um einstakar greinar er það að segja að í 1. gr. er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag um rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna og heimilað að leggja hinu nýja hlutafélagi til þvottahúsið sjálft ásamt öllu fylgifé þess, sem lýst hefur verið í máli mínu hér að framan. Það er gert ráð fyrir að heilbrrh. annist undirbúning að stofnun félagsins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar enda lúta Ríkisspítalar yfirstjórnar hans. Sérstaklega skal fram tekið að auðvitað verður haft fullt samráð og samstarf við stjórnarnefnd og stjórnendur Ríkisspítala um þann undirbúning.
    Nefnd, sem ráðherra skipar, skal meta eignir og skuldir þvottahússins. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags.
    Í 2. gr. er megintilgangur hlutafélagsins skilgreindur og gert ráð fyrir að þvottahúsið skiptist áfram í tvær deildir eins og nú er, þ.e. þvottadeild og saumastofu. Í lagagreininni er gert er ráð fyrir að þvottadeild sjái um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala og aðra aðila sem við er samið en saumastofa sjái um viðgerð, merkingu og endurnýjun á líni sem notað er á Ríkisspítölum og hjá öðrum sem semja um þessa þjónustu við félagið. Þá er einnig gert ráð fyrir að nánar megi kveða á um hlutverk félagsins í samþykktum þess og að samþykktum megi breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.
    Hér er að sjálfsögðu um nokkurt álitamál að ræða, þ.e. hvort gera eigi ráð fyrir því í lagatexta að fyrirtæki, sem er verið að stofna með þessum hætti og verður þá hlutafélag, sem a.m.k. fyrst um sinn verður að vísu í meirihlutaeign Ríkisspítala en gæti hugsanlega síðar komist í eign annarra utanaðkomandi aðila, eigi fortakslaust að þvo allan þvott fyrir Ríkisspítala og öðlast þar nokkra einokunaraðstöðu. En á hitt er að líta, eins og ég sagði hér áðan, að það er gert ráð fyrir því af minni hálfu að Ríkisspítalar eigi a.m.k. til að byrja með meiri hluta hlutafjárins og þarna er raunverulega verið að kveða á um að það sé ekki gert ráð fyrir því að Ríkisspítalar stofni við hliðina á þessu fyrirtæki annað fyrirtæki eða vísi að fyrirtæki á vegum Ríkisspítala sem annist þessa þjónustu að einhverju leyti eða hluta til.
    Um 3. gr. er það að segja að þar er kveðið á um að Ríkisspítalar skuli eiga öll hlutabréf félagsins við stofnun þess. Er það undantekning frá almennum reglum hlutafélagalaga sem gera ráð fyrir a.m.k. tveimur eigendum hlutafjár í hlutafélagi. Þar er einnig kveðið á um að heilbrrh. skuli fara með eignarhlut Ríkisspítalanna í félaginu og er honum heimilað að selja öll hlutabréfin í félaginu eða hluta þeirra. Gert er ráð fyrir að yrðu hlutabréf seld í félaginu mundu tekjur af slíkri sölu renna beint til Ríkisspítalanna.
    4. gr. frv. er ætlað að tryggja fastráðnum starfsmönnum Þvottahúss Ríkisspítalanna rétt til sömu starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður hjá Þvottahúsinu. Sambærileg ákvæði um réttindi starfsmanna hafa áður verið sett í lög þegar ríkisfyrirtækjum hefur verið breytt í hlutafélög, sbr. t.d. lög nr. 45/1989, um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.
     Í október 1992 störfuðu 55 manns hjá þvottahúsi og saumadeild Ríkisspítalanna. Í 32,3 stöðugildum er 41 einstaklingur í Verkakvennafélaginu Sókn og í 14 stöðugildum eru 14 einstaklingar í Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna, sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, munu halda þeim réttindum sínum við þá formbreytingu í rekstri sem hér er stefnt að. Vísast í því sambandi til ákvæðis í 17. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Í 5. gr. eru ákvæði um að þar eð Ríkisspítalar eru í upphafi eini hluthafinn í félaginu sé nauðsynlegt að veita undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarkstölu stofnenda og hluthafa. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að ákvæði hlutafélagalaga gildi um félagið. Hér er og gert ráð fyrir að stofnfund skuli halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og þar skuli leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið.
    Í 6. gr. er lagt til að að hlutabréf, sem gefin eru út við stofnun félagsins, skuli undanþegin stimpilgjöldum. Í umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. er talið eðlilegt að slík undanþága sé veitt.
    Í 7. gr. eru síðan gildistökuákvæði sem kveða á um að lögin öðlist þegar gildi eftir að þau hafa verið samþykkt og Þvottahús Ríkisspítalanna hf. yfirtekur eignir og rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna 1. jan. 1993, segir þar. Þessu ákvæði þarf að sjálfsögðu að breyta og miða við gildistöku frv. Eins og fram kemur eru gefnir þrír mánuðir frá því að frv. er samþykkt, ef svo verður, og þar til að framkvæmdin er

að fullu komin í hendur á hinu nýja hlutafélagi.
    Virðulegur forseti. Í þessu frv. eru að sjálfsögðu ýmis álitamál. Sum þeirra hef ég þegar bent á og ég geri ráð fyrir að hv. heilbr.- og trn., sem ég mun leggja til að fái þetta mál til meðferðar, skoði þau álitamál og ræði m.a. við þá aðila sem borið hafa og bera enn ábyrgð á rekstri Þvottahúss Ríkisspítalanna.
    Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og til meðferðar hv. heilbr.- og trn.