Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 20:58:34 (5845)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess sem hæstv. heilbrrh. sagði um að nauðsynlegt væri að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag að það væri í tiltekinni samkeppni úti á markaðinum þá vísa ég í það sem ég sagði hér áðan um ákvæði nýrra samkeppnislaga um slík tilvik. Þau eru alveg skýr. Hin nýju ákvæði samkeppnislaganna leysa að mati efh.- og viðskn., sem kannski hefur ekki jafnmikið vit á þessu og hæstv. heilbrrh. en taldi sig þó hafa farið nokkuð vel yfir það, með fullboðlegum hætti úr slíkum tilvikum þar sem ósköp einfaldlega er kveðið á um algeran bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit samkeppnisyfirvalda með slíkum rekstri þannig að fyrir því verði séð að það hafi ekki samkeppnisbjagandi áhrif.
    Það að breyta síðan fyrirtæki í hlutafélag er auðvitað allt annað heldur en að selja það. Og að skjóta sér á bak við að þetta sé nauðsynleg breyting til að sjá fyrir þessari hættu og svara svo ekki þeirri spurningu hvers vegna er verið að rjúka til og selja fyrirtækið og jafnvel að nota söluhagnaðinn áður en hann verður til sem er auðvitað algert heimsmet.
    Það sem hefur breyst, hæstv. ráðherra, varðandi ákvæðin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru einfaldlega nýfallnir hæstaréttardómar sem túlka þau ákvæði og skýra þau með þeim hætti og talar sá sem valdið hefur, þ.e. Hæstiréttur Íslands, að menn horfa nú á þetta í nýju ljósi. Sömuleiðis hafa lögmenn farið í að gera lögfræðilegar úttektir á þessu máli sem ekki lágu fyrir þegar sams konar lagaákvæði voru hér á dagskrá fyrir einhverjum árum síðan. Og mönnum er skylt að taka mark á slíkum nýframkomnum upplýsingum og eru menn að meiri að gera það. Þannig að þó svo einhverjir hafi einhvern tímann fyrr á öldinni greitt skyldum ákvæðum atkvæði sitt þá eiga þeir ekki að skammast sín fyrir að taka mark á nýframkomnum upplýsingum. Og það er sérkennilegt ef alþingismenn telja sig yfir það hafna að taka mark á dómum Hæstaréttar.