Þvottahús Ríkisspítalanna

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 21:04:47 (5849)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við nokkrum spurningum í seinni ræðu en gera þó athugasemdir við það sem fram kom í máli hans.
    Í fyrsta lagi vil ég undirstrika að hann sagði aftur, eins og í framsöguræðu, að hann teldi nokkur álitamál í frv. og það þyrfti að skoða það ítarlega. Sérstaklega nefndi hann það sem ég talaði um bæði í minni fyrri ræðu og eins í fjárlagaumræðunni í haust að það kynni að reka að því að stjórnendur og forsvarsmenn heilbrigðismála sæju sér einhvern tímann síðar, að einhverjum árum liðnum, hag í því að byggja nýtt þvottahús því það væri líklega þrátt fyrir allt, ódýrara og hagkvæmara en að kaupa þjónustu af þessu einkavædda fyrirtæki sem ráðherra hyggst nú koma á fót.
    Hann nefndi að vísu sem víti til varnaðar að önnur sjúkrahús á svæðinu hefðu reist sér nýtt þvottahús með ærnum tilkostnaði í stað þess að leita eftir þjónustu þessa húss. Þá vil ég minna á þær hugmyndir sem ég hef margsett fram, bæði hér í þessum ræðustóli og annars staðar, að það væri nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld beittu sér fyrir meira og betra samstarfi og e.t.v. samruna þessara stóru sjúkrahúsa. En ég ætla ekki að fara frekar út í það, hæstv. forseti, á þessu stigi því ég ætlaði ekki að hafa þetta langt mál.
    Aðeins varðandi þessar röksemdir sem ráðherra setti hér fram um hvers vegna hann teldi eðlilegt að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Það sem hann talaði um síðast í sínu svari við seinna andsvari hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var að þetta þvottahús, sem væri hugsanlega orðið samkeppnisaðili nú þegar við einkareknar stofnanir, ætti að greiða opinber gjöld. Með því að gera það að hlutafélagi þá kæmi það sjálfkrafa. Þá vil ég undirstrika það og beina því til hæstv. ráðherra að þá verði jafnframt séð til þess að þær opinberu stofnanir, Ríkisspítalar og Borgarspítali, og þau sjúkrahús sem eiga eftir að kaupa þjónustu af þessu fyrirtæki að fái það þá metið í sínum fjárveitingum því það hlýtur að þýða aukin útgjöld fyrir þessar stofnanir. Ég minni á að stofnanirnar hafa nú þegar lent í nokkrum erfiðleikum við yfirvöld fjármála að fá viðurkennda skattálagningu, t.d. virðisaukaskattsálagningu á vinnu iðnaðarmanna, svo ég nefni eitthvað. Fjármálayfirvöld hafa því miður skellt við skollaeyrum og sagt: Það stendur bara ekki til að bæta það. Það stendur bara ekki til að bæta stofnunum þetta upp í fjárveitingum og það hefur síðan leitt til þess að þær hafa lent í rekstrarerfiðleikum eða þurft að skera niður aðra þætti þjónustunnar.
    Að lokum, hæstv. forseti, þá fannst mér vanta svar hjá hæstv. ráðherra við spurningu minni til hans hvort ekki væri hugsanlegt að hann breytti afstöðu sinni til þess að sértekjur af hugsanlegri sölu hlutabréfa bitnuðu svo á rekstri Ríkisspítalanna sem fjárlög nú gera ráð fyrir, eins og þau eru nú samþykkt, eða

a.m.k. að hugsanlegt væri að breyta greiðsluáætlun fjmrn. þangað til séð yrði hverju fram yndi með þær hugmyndir sem er verið að ræða í þessu frv. sem til umræðu er.
    Ef hæstv. ráðherra kemur í stólinn til að svara mér einhverju um þetta þá vil ég bæta við einni spurningu sem ég gleymdi áðan: Hvort það sé heimilt að Ríkisspítalar eigi í hlutafélagi sem sé í almennri samkeppni og séu hluthafar með öðrum aðilum. Ég minni á það að í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á rekstri Ríkisspítala á árinu 1991 gerði Ríkisendurskoðun athugasemd við það að Ríkisspítalar væru hluthafar í fyrirtæki sem heitir Tölvuþekking hf. Og ein tilvitnun í þessa úttekt Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta. Þar segir: ,,Ríkisendurskoðun telur það ekki samræmast markmiðum Ríkisspítala að taka þátt í slíkum rekstri. Þá gerir Ríkisendurskoðun einnig athugasemd við það að Ríkisspítalar eigi fyrirtæki með starfsmönnum sínum sem vinna samtímis fyrir spítalana og viðkomandi fyrirtæki.``
    Auðvitað er hugsanlegt að einhverjum starfsmönnum Ríkisspítala þætti fýsilegt að gerast hluthafar í þessu nýja fyrirtæki ef af verður. Engu skal ég spá um það fyrir fram. Ég ætla ekki að segja fleira að sinni, hæstv. ráðherra, enda verður tími til að ræða málið nánar í nefndinni og þá hugsanlega þegar það kemur aftur til umræðu eftir umfjöllun nefndar um málið.