Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 13:38:50 (5851)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81 frá 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Frv. er á þskj. 684 og er 390. mál þingsins. Þetta frv. er flutt vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þannig að við getum uppfyllt þær skyldur sem fylgja aðild að svæðinu.
    Þetta frv. er einungis tvær greinar. Í 1. gr. frv. er lögð til breyting á 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og í 2. gr. eru gildistökuákvæði.
    Í 74. gr. EES-samningsins er vísað til viðauka sem merktur er XX, en í viðaukanum eru sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda skv. 73. gr. samningsins. Þessar ráðstafanir eru byggðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, að áhersla sé lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og að bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Þetta eru í rauninni þær grundvallarreglur sem verið hafa að festast í sessi í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.
    Í þessum sama viðauka eru fjölmargar tilskipanir sem varða mengunarmál, t.d. varnir gegn mengun, viðmiðunarmörk vegna mengandi efna, gæði viðtaka, framkvæmd eftirlits og endurskoðun starfsleyfa. Laga þarf íslenska mengunarvarnalöggjöf að efni þessara tilskipana og þykir eðlilegt að útfæra ákvæðið þar að lútandi í mengunarvarnareglugerð, enda eru þar nú þegar sambærileg ákvæði.
    Mengunarvarnareglugerð er sett skv. 3. gr. laga nr. 81/1988. Þessi lög eru á verksviði tveggja ráðuneyta og eru mengunarvarnir og mengunarvarnaeftirlit á verksviði umhvrn. en framkvæmd og eftirlit með heilbrigðisþættinum er á verksviði heilbrrn.
    Eins og 3. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nú er orðuð, þá er reglugerðarheimildin að sumu leyti talin of takmörkuð fyrir þá þætti sem kveða þarf á um vegna gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Þess vegna er nauðsynlegt að breyta henni. Sú lagabreyting sem hér er lögð til miðar fyrst og fremst að því að styrkja grundvöll mengunarvarnareglugerðar með því að kveða nánar á um

einstaka þætti en nú er gert og gera orðalag nokkru skýrara.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, víkja að þeirri meginbreytingu sem þetta frv. hefur í för með sér. Við 1. mgr. 3. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er lagt til að bætt verði tilvísun til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Þetta er einkum gert í þeim tilgangi að styrkja grundvöll reglugerðarinnar með tilliti til þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og fjalla um mengunarmál.
    Breytingarnar sem lagt er til að gerðar verði á 2. mgr. 3. gr. eru sem hér segir:
    1. Lagt er til að nýjum tölulið verði bætt við 2. mgr., þ.e. um endurskoðun starfsleyfa. Í nokkrum þeirra tilskipana sem taldar eru upp í XX. viðauka við EES-samninginn eru ákvæði þess efnis að starfsleyfi fyrirtækja verði endurskoðuð ef verulegar breytingar verða á starfsemi þeirra vegna breyttrar tækniþróunar. Breyting þessi þykir einnig nauðsynleg burt séð frá aðild Íslands að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Starfsleyfum hér hefur fjölgað verulega á síðari árum í kjölfar aukinna krafna um mengunarvarnir fyrirtækja og virkara eftirlit. Í mörgum tilvikum eru ekki heimildir til endurskoðunar, en eðlilegt hlýtur að vera að hægt sé að endurskoða starfsleyfi verði veruleg breyting á starfsleyfi eða tækniþróun.
    Þá er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 2. mgr. 3. gr. um áhættumat vegna tilskipunar nr. 82/501/EBE, um hættu á stórslysum í tengslum við tiltekna atvinnustarfsemi. Tilskipuninni fylgja viðaukar þar sem skilgreindar eru aðferðir og talin upp efni sem notuð eru við starfsemina og marka viðaukarnir gildissvið hennar. Í tilskipuninni er enn fremur kveðið á um að rekstraraðilar í iðnaðarstarfsemi, sem þessar reglur gilda um, verði að veita ítarlegar upplýsingar um starfsemina og skilgreina hættu á meiri háttar óhöppum með tilliti til framleiðsluaðferða, notkunar hættulegra efna, svo og geymslu þeirra ásamt lýsingu á aðstæðum öllum.
    Í þriðja lagi er lagt til að hugtök verði samræmd. Lagt er til að hugtakið viðmiðunarmark verði notað í stað viðmiðunarregla í 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. og að við 4. tölul. sömu málsgreinar verði bætt ákvæðum um viðmiðunarmörk að því er varðar gæði vatns. Eins og 4. tölul. er nú orðaður er einungis fjallað um meðferð vatns og sjávar í iðnaði en ekki vísað til viðmiðunarmarka.
    Loks er lagt til að bætt verði við 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglum um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk en orðalag þess töluliðar er nú takmarkað við frárennsli og skolp en ekki er vísað til hreinsunar eða viðmiðunarmarka eins og nauðsynlegt þykir. Að öðru leyti er þessi 3. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit óbreytt.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. umhvn.