Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:18:52 (5855)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir mjög jákvæðar undirtektir við þetta mikilvæga mál og get í rauninni tekið undir mjög margt af því sem þeir hafa sagt. Það er auðvitað eðlilegt að hér komi til umræðu sá kostnaður sem þessu er samfara því að hann er nokkur, en þá er auðvitað brýnt að menn hafi í huga að sá kostnaður er ekki nema að tiltölulega litlu leyti tengdur aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að margt af þessu eru aðgerðir sem við þyrftum hvort sem er að ráðast í og aðgerðir sem þegar eru komnar á framkvæmdastig. En það er talið að í stærri sveitarfélögunum sé kostnaðurinn við þessar umbætur í fráveitumálum um 6 milljarðar kr. en þar af séu kannski 1.100--1.200 millj. sem megi segja að sé viðbótarkostnaður vegna aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu sem þó er ekki í öllum tilvikum rétt vegna þess að tæknilega mun í sumum tilvikum ekki hægt að komast fram hjá þeim kostnaðarauka hvort sem menn telja hann brýnan á þessu stigi eður ei, þannig að í rauninni hefur samningurinn um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu tiltölulega lítil áhrif að því er varðar stærri sveitarfélögin.
    Meginbreytingin sem reglur Evrópska efnahagssvæðisins í fráveitumálum hafa í för með sér eru í fyrsta lagi auknar kröfur um hreinsun og hins vegar þessir tímasettu áfangar sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason spurði nú raunar um. Tímasetningarnir eru víða miðaðar við árið 2005 í smærri sveitarfélögunum, en í stærri sveitarfélögunum eru algengustu viðmiðunarmörkin árið 2000. Af 65 þéttbýlisstöðum hér á landi, þ.e. sem hafa yfir 200 íbúa samkvæmt skilgreiningu þessa samnings um Evrópska efnahagssvæðið, þá snerta þessar breytingar 38 staði.
    Það hefur verið vikið sérstaklega hér að fiskvinnslunni og þeim vandamálum sem þetta kynni að valda fyrir hana. Þar má sjálfsagt segja að ýmsu sé ósvarað eða erfitt að svara og erfitt að meta þann kostnað sem þetta muni hafa í för með sér fyrir fiskvinnsluna, en hin almenna reynsla er sú að þar sem gerðar eru breytingar og dregið úr mengun, þá leiðir það til betri nýtingar hráefnis og dregur þannig úr kostnaði. Ég minni á að fyrir nokkrum dögum var frásögn í dagblaði hér sem ég hef nú ekki við höndina, því miður, af fiskvinnslufyrirtæki austur á fjörðum sem setti upp fitugildru á frárennsli frá fiskvinnslunni. Þessi fitugildra leiddi auðvitað til þess að mengun í frárennslinu stórminnkaði og ekki bara það, heldur reyndist þetta svo hagkvæm framkvæmd að hún borgaði sig upp á tiltölulega stuttum tíma því að það var auðvitað hægt að nýta fituna sem hráefni til annarrar framleiðslu. Þetta er mjög athyglisvert dæmi vegna þess að yfirleitt er það svo að þar sem um mengun er að ræða, þá gefur það oft til kynna slæma nýtingu hráefna og með því að bæta mengunarvarnir og fyrir því eru mörg, mörg skýr dæmi, þá bæta fyrirtækin sína afkomu enda þótt því fylgi einhver milljónakostnaður í fjárfestingu. Ég hygg að hjá fiskvinnslunni muni það allvíða verða raunin án þess að ég skuli kannski gerast of fullyrðingasamur um það á þessu stigi.
    Það er sem betur fer mjög vaxandi skilningur á mikilvægi þessara mála hjá sveitarfélögunum í landinu, mjög vaxandi skilningur. Við erum þarna eins og kom fram í umræðunni áðan á eftir grönnum okkar og við verðum að taka okkur á því að við erum matvælaframleiðsluþjóð og við verðum að hafa strangar reglur og strangar kröfur um hollustu og heilbrigðishætti og heilbrigðiseftirlit vegna þess að við erum að selja héðan hrein matvæli. Um þetta held ég að enginn velkist í vafa, en þessu fylgir kostnaður og um það hefur verið spurt, hv. þm. Guðmundur Bjarnason spurði m.a. um það og það gerðu fleiri, hvernig eigi að mæta þessum kostnaði. Hyggst ríkið aðstoða sveitarfélögin í þessum efnum?
    Nú er það svo að samkvæmt verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru þessi mál tvímælalaust, og um það er ekki deilt, verkefni sveitarfélaganna. Auðvitað getur það komið til álita þegar þau mál eru tekin til skoðunar að ríkið komi með einhverjum hætti að þessum málum en það yrði þá að mínu mati að vera í tengslum við endurskoðun á þessum verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það var minnst á útvegun fjármagns til þessara framkvæmda. Sveitarfélögin ráða raunar yfir mjög sterkri lánastofnun, Lánasjóði sveitarfélaga, sem sennilega er einhver sterkasta lánastofnun landsins. Auðvitað á sá sjóður að sinna verkefnum af þessu tagi. Það kann að vera að breyta þurfi lögum og reglum eitthvað til þess að það verði unnt, en það ætti nú ekki að standa mjög í mönnum.
    Þá hefur Iðnlánasjóður að ég hygg tekið upp sérstakan lánaflokk til umhverfismála og látið þau mál

hafa vissan forgang. Þá nefni ég það líka að Norræni fjárfestingarbankinn, þar sem Íslendingar hafa átt tiltölulega greiðan aðgang að lánum, veitir lán með góðum kjörum til umbóta í umhverfismálum og hafa einhverjir aðilar þegar notfært sér það hér, en hyggja á fyrir tilstilli samtaka sveitarfélaga að nota það í enn ríkari mæli en gert hefur verið til þessa. Það eru ýmsar leiðir til fjárútvegunar í þessum efnum og hjá lánastofnunum er áreiðanlega vaxandi skilningur á mikilvægi þess að lána fé til framkvæmda í umhverfismálum og ég get tekið undir það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði hér áðan, að auðvitað ber að horfa á þessi verkefni þó að nú séu samdráttar- og erfiðleikatímar í ljósi þess að hér er ekki aðeins um mjög atvinnuskapandi verkefni í flestum tilvikum að ræða, heldur mjög þörf umbótaverkefni sem við komumst ekki hjá að framkvæma.
    Það hefur líka verið spurt um hvað gert hafi verið til að kanna kostnað í þessum efnum. Á vegum umhvrn. er starfandi nefnd sem er að gera sérstaka úttekt á frárennslismálunum um allt land. Hún hefur þegar lokið hluta af sínu verki og skilað um það áfangaskýrslu, en hvenær hún endanlega lýkur störfum skal ég ekki fullyrða um, en þess verður vonandi ekki mjög langt að bíða. Ég held að menn eigi ekki að láta sér vaxa í augum þann kostnað sem er samfara því að koma þessum málum í bærilegt horf. Vissulega er hann mikill. Hann dreifist á langan tíma, en þetta er kostnaður sem við komumst ekki hjá að greiða.
    Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði í sinni ræðu, að við getum auðvitað haldið áfram að ganga á inneignina ef svo má segja, við getum haldið áfram að sóða út, og það kemur óhjákvæmilega að skuldadögunum. Og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því og því fyrr sem við byrjum að borga þá skuld sem við stöndum í gagnvart umhverfinu, því betra. Og þetta frv. er einmitt liður í því.
    Ég held þá, virðulegi forseti, að ég hafi svarað flestum þeim fyrirspurnum sem til mín var beint og ítreka þakkir til þeirra þingmanna sem tóku jákvætt undir þetta í umræðum hér áðan.