Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:29:16 (5856)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans við þeim fyrirspurnum sem við hv. þm. nokkrir bárum fram til hans. Þó fannst mér aðeins vanta á og mig langar að árétta. En ég vil fyrst segja að það er auðvitað rétt eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra að verulegur hluti þess kostnaðar, sem við erum að ræða hér um og höfum nokkrar áhyggjur af, tilheyrir þeim ábyrgðum sem við höfum þegar tekið, lögum sem í gildi eru og reglugerðum sem þegar hafa verið settar og varða frárennslismálin og förgun sorps, urðun eða brennslu eins og ég reyndar gat um í fyrri ræðu minni. Mér er það fyllilega ljóst að það tilheyrir ekki þessum samningi beinlínis, en þó eru hér auðvitað viðbótarkvaðir allnokkrar og ég held að hæstv. ráðherra hafi nefnt 1.100--1.200 millj. En mér finnst það nú reyndar vera meira. Það er út af fyrir sig ekki aðalatriðið í þessu. Það segir hér í greinargerðinni að þegar allt sé tínt til, þá muni þetta líklega vera 1,9 milljarðar eða nær 2 milljörðum sem megi segja að tilheyri beint því sem hér er lagt til fyrir utan auðvitað ýmiss konar rekstrarkostnað. Þetta þýðir auðvitað aukið eftirlit, þetta þýðir viðbótarmannskap hjá Hollustuvernd ríkisins, fólk sem þarf að starfa við þetta eftirlit og fylgjast með því sem hér er gert ráð fyrir og svo auðvitað líka hjá sveitarfélögunum. Það er ekki tilgreint hér sérstaklega hvað þetta kann að þýða hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna. Það eru viðbótarþættir sem að sjálfsögðu er erfitt að spá fyrir um eða gera sér grein fyrir á þessu stigi og verður að koma í ljós. Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra og öðrum þeim hv. þm. sem hér hafa talað, að þetta er auðvitað verkefni sem við verðum að takast á við og það er enginn að segja það að þrátt fyrir þennan kostnað getum við skotið okkur undan í því efni. Spurningin er auðvitað fyrst og fremst nú eins og svo oft áður, hvernig menn forgangsraða. Hvaða tíma höfum við til þess að takast á við þetta og hver er fjármögnunin innan þeirra tímamarka sem við höfum sett okkur?
    Það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra varðandi tímasetningar er nú kannski það sem segir m.a. í greinargerðinni um dagsetningar eða ártöl varðandi hreinsun skolps frá þéttbýli. Þar er talað um árið 2000 og árið 2005. En í viðaukanum, þessum viðauka sem merktur er viðauki XX við EES-samninginn, er fjallað um ýmsar tilskipanir og kröfur sem þar eru settar fram og þessum kafla skipt í nokkra undirkafla. Það fjallar einn t.d. sérstaklega um vatn, annar um loft, sá þriðji um efni ýmiss konar og sá fjórði um úrgang almennt. En í öllum þessum köflum eru margar tilskipanir og í flestum köflunum eru ákvæði sem hljóða eitthvað á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á Íslandi skulu nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun koma til framkvæmda frá 1. jan. 1995.``
    Eða þar sem ekki er talað um Ísland sérstaklega, þá segir, með leyfi forseta: ,,Í EFTA-ríkjunum skulu nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun koma til framkvæmda frá 1. jan. 1995 með fyrirvara um endurskoðun fyrir þá dagsetningu.``
    Það var þetta sem ég ræddi um hér áðan, hæstv. ráðherra, að mér sýndust vera þrengri tímatakmarkanir heldur en þó er gert ráð fyrir hér í greinargerðinni, mér sýndust vera þrengri tímatakmarkanir í þessum tilvitnunum sem ég hef lesið upp og eru margar og ég hirði ekki að lesa allar eða taka fram sérstaklega um hvað verið er að ræða í hverju tilviki, það er mjög mismunandi. Hér eru t.d. viðmiðunarmörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri, svo bara eitt dæmi sé nefnt, og ýmiss konar efni sem ég kann út af fyrir sig ekki skil á. Hér er t.d. talað um tilskipun, svo ég lesi nú eina tilvitnun orðrétt, með leyfi forseta, tilskipun ráðsins nr. 91/271/EBE frá 21. maí 1991, um hreinsun skolps frá þéttbýli, og þar kemur síðan þessi fylgifiskur:
    ,,Á Íslandi skulu nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að þessari tilskipun koma til framkvæmda frá 1. jan. 1995.``
    Það var þetta sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra að áðan hvort við værum bundin við þessi mörk sem eru ekki nema tvö ár eða hvort við höfum tíma til 2000 eða 2005 sem auðvitað munar verulega um. Ef hæstv. ráðherra kemur aftur í ræðustól --- auðvitað má þetta út af fyrir sig mín vegna bíða skoðunar í nefnd og síðari umræðu --- þá eru hér tvö atriði sem ég gleymdi að nefna úr fyrri ræðu minni og hefði viljað heyra aðeins álit ráðherra á. Það er varðandi hin nýju ákvæði í 3. gr. laganna um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit skv. 1. gr. þessa frv. sem hér liggur fyrir um endurskoðun starfsleyfa og áhættumat fyrir nýjan og starfandi atvinnurekstur, þ.e. endurskoðun starfsleyfa sem eru í gildi og nýtt áhættumat og ný ákvæði fyrir starfandi atvinnurekstur. Hvað kann þetta að þýða? Hafa starfsmenn hæstv. ráðherra og þeir sem hafa unnið að þessu velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta getur haft fyrir starfsemina sem er í gangi? Getur þetta þýtt að það verði nýjar kvaðir lagðar á fyrirtæki eða getur þetta hugsanlega í einhverjum tilvikum, ef menn átta sig á því eða hafa velt því fyrir sér hvað er verið að tala um, þýtt að það geti torveldað atvinnustarfsemi sem nú þegar er í gangi?