Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 14:35:55 (5857)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Ég held varðandi það síðara sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason spurði um að það sé ekki hugsað í þá veru að það torveldi sérstaklega atvinnurekstur sem þegar er í gangi þó þarna verði heimild til endurskoðunar starfsleyfa. Þarna er m.a. verið að taka tillit til hugsanlegra breytinga á tækni og hugsanlegra breytinga í kröfugerð. Það kann að vera að það megi finna dæmi þar sem slíkt veldur einhverjum erfiðleikum. Ég get nú nefnt dæmi um atvinnurekstur þar sem breytt var kröfum, gerðar strangari kröfur, þar sem er fiskimjölsverksmiðjan í Örfirisey, þar sem stóðu töluvert miklar deilur og lagt var hart að okkur í umhvrn. að fallast ekki á að þar yrði atvinnurekstur af því tagi. Reynslan hefur hins vegar leitt í ljós að með strangari kröfum hefur tekist að koma í veg fyrir það að þeir sem búa þarna í grenndinni verði fyrir nokkrum óþægindum af þeirri starfsemi sem þarna fer fram. Þetta er einmitt dæmi um það sem vel hefur tekist. Það var í rauninni svo að löngu eftir að þarna var byrjað að bræða fisk að nýju þá var verið að beina spurningum til okkar um það hvenær yrði byrjað. Menn biðu allir eftir lyktinni.
    Varðandi þau mörk sem hv. þm. nefndi áðan, og vissulega eru rétt, að í sumum tilvikum er talað um 1. jan. 1995. Almennt talað og eftir bestu vitneskju þá er það mat þeirra sem hafa skoðað þessi mál að þetta valdi okkur ekki vandræðum. Þarna sé um að ræða atriði sem annaðhvort eiga ekki við hér, nánast alls ekki eða að mjög litlu leyti, og að auki sé sá kostnaður sem hugsanlega væri því samfara mjög lítill, hlypi kannski á bilinu einhver hundruð þúsunda króna. Að þeirra yfirsýn sem yfir þetta hafa farið er ekki talið að þessi tímatakmörk muni valda sérstökum vandræðum.