Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:08:27 (5860)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Páll Pétursson taldi ástæðu til að umhvn. sendi þetta frv. til umsagnar í landbn. Hann bar þessa ósk fram í framhaldi af áhyggjum sínum um að hugsanlega væri frv. ekki nógu gott af því að ekki væru bændur í þeirri nefnd sem undirbjó frv. Nú vil ég minna hv. þm. á það að í umhvn. sitja a.m.k. tveir bændur, ef ekki þrír, þannig að þess vegna er málið í mjög góðum höndum ef það er einasta áhyggjuefnið að ekki hafi bóndi komið að undirbúningi málsins.
    Hvað áhyggjur hv. þm. varðar um það að formennska í dýranefnd og þá líka í villidýranefnd gæti hugsanlega verið ágætur bitlingur fyrir einhvern krata eða samflokksmann hæstv. umhvrh. þá er það oft svo að þegar stjórnmálamenn eru á leið út úr pólitík þá leggja þeir fram óskir sínar um önnur störf í óeiginlegri merkingu. Það er því ekki hægt að túlka orð hv. þm. Páls Péturssonar öðruvísi en þannig að þarna hafi hann verið að leggja fram ósk um að þetta mundi henta honum mjög vel þegar hann hættir í pólitík. Ég skildi ekki orð hans öðruvísi en svo að það kynni að verða fyrir næstu kosningar.