Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:51:37 (5865)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég get sagt strax í upphafi að ég tel að í meginatriðum sé þetta frv. gagnlegt og

sjálfsagt, þó að eins og hefur komið hér fram í umræðum hjá hv. þm., það séu einstök atriði sem þarf að taka til athugunar. Það er alveg ótvírætt að meðferð dýra hefur farið verulega batnandi á undanförnum áratugum, ekki síst vegna þeirra aðila sem hv. þm. hafa verið að vitna hér til, talsmanna dýraverndunarfélaga og þeirra sem stóðu að því ágæta riti, Dýraverndaranum.
    Ég hef hins vegar trú á því að á sama tíma og meðferð búfjár hefur farið batnandi, þá hafi kannski frekar hallað á gæludýrin sem eru orðin algeng og ég hef ekki alltaf sannfæringu fyrir að þeir sem eiga þau viti nákvæmlega hvað þeir eru með í höndunum.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði athugasemd við 8. gr. frv. og þar greindi þá á, hann og hv. 3. þm. Reykn., um það hvort það væri eðlilegt eða ekki að eyrnamarka fullvaxin dýr án deyfinga. Ég lít nú þannig á að athugasemdir hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi verið fyllilega réttmætar og finnst eðlilegt að hv. umhvn. taki tillit til þeirra athugasemda. Einhvern veginn sé ég nú fyrir mér annan brag á réttum þegar bændur fara að huga að ómerkingum sem koma af fjalli á haustin þegar þeir þurfa að ganga með deyfisprautuna í öðrum vasanum og kannski vasapelann í hinum.
    Það sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni er í raun og veru það sem ekki stendur í frv. Ég minntist á það að meðferð dýra hefur farið stórbatnandi. Það er hætt sem betur fer að setja á guð og gaddinn. Þó er það nú þannig að það er einn aðili í landinu sem gerir það án þess að ég ætli honum það að gera það vísvitandi, en það er hæstv. umhvrh. með hreindýrin sín sem vissulega eru sett á guð og gaddinn. Fyrir þann sem er alinn upp í návist þessara dýra, þá er það býsna minnisstætt að sjá þau tugum og hundruðum saman við það að falla í hörðum vetrum. Það er nefnilega þannig að þó að sem betur fer hafi þessi dýr alla jafna nægjanlegt til sín af fóðri, þá er fjöldi þeirra langt yfir það að vera of mikill þegar harðnar á dalnum og tekur fyrir jörð. Þá leita þau út á lágsveitir og það er ekki óalgengt fyrir þá sem búa í næsta nágrenni við helstu heimahaga hreindýra að finna þau tugum saman horfallin á hæstu hnjótum. Ég mælist til þess við hv. umhvn. að hún velti því fyrir sér við umfjöllun frv. hvort ekki muni vera nauðsynlegt að setja einhvers konar ítölu í það land sem á fæða hreindýrin. Ég tel að það sé ekki forsvaranlegt núna á þeim tímum sem hvers konar umhverfisvernd er í hávegum höfð, að þá sé umhvrh. og umhvrn. eini aðilinn í landinu sem hefur til þess formlegt leyfi að setja á guð og gaddinn og horfella sinn búpening.