Dýravernd

125. fundur
Miðvikudaginn 10. mars 1993, kl. 15:58:19 (5867)

     Hrafnkell A. Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er það fyllilega ljóst að þau ummæli sem ég viðhafði hér áðan kunna að koma illa við hæstv. umhvrh. Ég tók fram að ég hélt að ég beindi þeim ekki persónulega gegn honum, en hins vegar er það fyllilega ljóst öllum sem hafa umgengist hreindýr og verið á þeim slóðum þar sem þau eru, að þau eru sett á guð og gaddinn. Þegar harðnar á dalnum, þá er ekki nægjanlegt fóður fyrir þessa dýrategund þar sem henni er ætlað að vera og ég tel það stóralvarlegt mál að það skuli vera látið viðgangast á ábyrgð ríkisvaldsins. En að ég sé persónulega með þessu að veitast að hæstv. umhvrh. er mikill misskilningur. Ég er ekki að útmála hann sem sérstakan fjandmann hreindýranna eins og hann orðaði það, en ég hins vegar ítreka það að ég fer fram á það við hv. umhvn. að hún skoði þennan þátt í dýravernd.