Verndun keilustofnsins

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:30:17 (5868)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Sá ágæti fiskur keilan var til skamms tíma álitinn lítils virði og mestmegnis veiddur sem aukaafli í net eða troll. Þetta hefur hins vegar breyst á tiltölulega skömmum tíma. Keilan hefur verið utan kvóta en með takmörkunum á þorskveiðiheimildum hefur sóknin í hana vaxið jafnt og þétt. Þessi aukna ásókn hefur á síðustu árum leitt til þess að á örfáum árum hefur aflinn tvöfaldast. Afli Íslendinga hefur farið úr tæpum 3.200 tonnum árið 1989 í 6.400 tonn 1991 og svipað magn var síðan veitt árið 1992.
    Það segir hins vegar ekki alla söguna. Erlend skip, og þá fyrst og fremst færeysk, hafa einnig á þessum tíma veitt frá tæpum 2.000 og upp í tæp 4.000 tonn þó að aflinn hafi að sönnu farið minnkandi síðustu árin. Eftir stendur eigi að síður, virðulegi forseti, að heildarafli keilu jókst frá 5.000 tonnum árið 1985 upp í næstum því 9.000 tonn árið 1991.
    Þetta er mikil aukning og það er vafamál hvort keilustofninn, sem er viðkvæmur og auk þess lítt rannsakaður, þoli þessa miklu sókn til lengdar. Raunar hefur ýmislegt komið fram sem bendir til þess að svo sé ekki. Þannig halda reyndir keiluveiðimenn því fram að afli á sóknartíma fari dvínandi, meðalþyngdin minnki sömuleiðis og það er sláandi að þrátt fyrir það sem krókaveiðimenn kalla verulega aukningu í sókn á milli áranna 1991 og 1992 hefur afli Íslendinga ekki aukist heldur minnkað örlítið og heildaraflinn þegar veiði erlendra skipa er tekin með í reikninginn hefur sömuleiðis minnkað. Keilan er hins vegar tiltölulega viðkvæm tegund eins og ég gat um áðan. Hún er nokkuð staðbundin og það er líklega auðvelt að skemma stofninn tiltölulega hratt með of mikilli veiði.
    Sjómenn sem stunda veiðarnar eru alfarið þeirrar skoðunar að keilan fari smækkandi. Þeir halda því jafnframt fram að afli á sóknareiningu sé minni en áður. Hvort tveggja bendir vitaskuld til ofveiði. Á sumum svæðum, þar sem auðvelt er að leggja línu, segja sjómenn t.d. að afli hafi stórminnkað og tala um t.d. að hann sé kominn niður í örfáa tugi kílóa af smákeilu á bala. Önnur svæði, þar sem erfitt er að koma við línu vegna botnlags, gefa hins vegar enn drjúga veiði af stórkeilu á þá króka sem á annað borð nást upp.
    Virðulegi forseti. Það sem ég hef rakið hér bendir sterklega til þess að keilustofninn sé ofsóttur. Það er hins vegar um dýrmætan stofn að ræða og mikilvægan fyrir krókabáta. Ég hef því spurt hæstv. sjútvrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir einhverjum aðgerðum til verndar stofninum. Sérstaklega hef ég áhuga

á því að vita hvort hann hyggst enn frekar takmarka sókn útlendinga í stofninn.