Verndun keilustofnsins

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:36:01 (5870)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svör hans. Það sem upp úr stendur er að það er staðfest af samantekt Hafrannsóknastofnunar að það hefur verið umtalsverður aflasamdráttur á sóknareiningu. Ég er alveg ósammála þeirri ályktun sem ráðherrann og Hafrannsóknun dregur af þessari staðreynd, þ.e. að það bendi ekki til ofveiði. Ég tel að það bendi til ofveiði.
    Ég vil líka, virðulegi forseti, láta það koma fram að ég fékk forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda til þess að hafa samband við talsvert marga sjómenn sem stunda keiluveiðar og það virðist vera sameiginleg niðurstaða flestra þeirra, ekki þó allra, að meðalþyngd veiddrar keilu fari minnkandi. Þeir eru sammála stofnuninni um það að aflasamdrátturinn sé verulegur.
    Ég bendi líka á það að í máli ráðherrans kom fram að stofnunin hefði lagt til hámarksafla upp á 10 þús. tonn á meðan verið væri að kanna stofninn, að því er mér skildist á ráðherranum. Eigi að síður liggur það fyrir að þessi afli hefur ekki náðst. Aflinn hefur þvert á móti farið örlítið minnkandi og það þykir mér benda til þess að hérna séum við komin e.t.v. að endimörkum þessarar miklu veiði sem hefur orðið á síðustu árum. Ég tel einsýnt að það þurfi með einhverjum hætti að grípa til einhvers konar takmarkana á sókn. Ég er ekki að leggja það til, sem til að mynda tvíhöfða nefndin hefur gert af afskaplega óljósum fregnum í gegnum fjölmiðla, að keila verði tekin undir kvóta. Ég bendi hins vegar á að það kemur fram í máli sjómanna og ráðherrans, sem augljóslega er sérfræðingur í keilu eins og kom fram í ítarlegu yfirliti hans, að keilan er staðbundinn stofn þannig að það er vafalaust kleift að draga línu um þau svæði og takmarka sóknina á þessi svæði. Til að mynda það svæði fyrir suðurströndinni sem hann gat um sérstaklega.
    Ég vil líka, virðulegi forseti, láta það koma fram að ég met Færeyinga mikils og ég vil gera allt sem hægt er til þess að vernda þá en ég vil líka vernda keiluna.