Dragnótaveiðar á Faxaflóa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:46:58 (5875)

     Guðjón Guðmundsson :
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir að hreyfa þessu máli með fsp. Dragnótaveiðar í sunnanverðum Faxaflóa hafa í marga áratugi verið mikið deilumál og sitt sýnst hverjum um ágæti þeirra. Á Akranesi, þar sem smábátaúgerð er mjög öflug, er mikil og almenn andstaða gegn þessum veiðum. Sú andstaða speglast vel í þeirri samþykkt sem gerð var í bæjarstjórn Akraness í síðasta mánuði þar sem ráðherrann er hvattur til þess að banna þessar veiðar í tilraunaskyni næstu tíu árin. Það er mjög almenn skoðun þeirra sem stunda veiðar á smábátum á þessum slóðum að veiðar í dragnót séu mjög skaðlegar á viðkvæmum hrygningarsvæðum í Faxaflóa og sjómenn hafa í gegnum árin talið sig sjá fylgni milli fiskigengdar í flóanum og þess hvort dragnótaveiðar hafa verið leyfðar eða ekki. Það er hárrétt sem segir í samþykkt bæjarstjórnar Akraness að þarna er ekki um neinar tilraunaveiðar að ræða. Þessar veiðar hafa staðið í áratug og hafa ekkert með tilraunir að gera. Það eru sömu 13 eða 14 bátarnir frá Reykjavík og Keflavík sem stunda þessar veiðar ár eftir ár og þeir eru ekki að stunda neinar tilraunaveiðar. Það er athyglisverð ábending sem kemur fram í ályktun bæjarstjórnar Akraness að gera nú tilraun með að banna þessar veiðar í tíu ár og ég er ekki í vafa um að slíkt bann væri til bóta, alla vega á viðkvæmustu svæðum flóans.