Dragnótaveiðar á Faxaflóa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:52:25 (5879)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svörin. Þau voru skýr. Hann ætlar að festa þessar reynsluveiðar á dragnót í sessi ef ég skil hans orð rétt. En ég vil spyrja hann: Finnst hæstv. ráðherra 14 bátar á dragnótaveiðum í Faxaflóa ekki fullmikið og hyggst hann ekki fækka þessum leyfum?

    Það kom fram í ræðu hv. þm. Karls Steinars áðan að það hefði verið framsóknarmönnum að kenna hversu mörgum bátum var leyft að veiða þarna í dragnót. Nú er þá tækifæri til að fækka þeim. Ekki er það Framsókn sem stjórnar nú í sjútvrn. og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hyggst hann fækka þessum bátum?
    Mér finnst því ekki vera svarað hvort hér sé verið að eyðileggja uppvaxtarskilyrði þorsks og ýsu. Það kemur greinilega fram í aflatölum að ýsuveiði fer hraðminnkandi í flóanum og ég held að það sé engin spurning að það þurfi að loka flóanum í tíu ár, eins lengi og dragnót hefur verið leyfð í flóanum, til að sanna hvort hér sé verið að eyðileggja uppvaxtarskilyrði þorsks og ýsu.