Dragnótaveiðar á Faxaflóa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:54:37 (5881)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Fyrst þetta. Það er auðvitað alrangt og röng fullyrðing, sem stenst ekki við neitt af því sem hér hefur verið sagt, af hv. 17. þm. Reykv. að Hafrannsóknastofnun og ráðuneyti taki ekki neitt mark á því þó að afli minnki á sóknareiningu. Á hinn bóginn hefur stofnunin sagt það í áliti sínu að það þurfi ekki að benda til þess að keilustofninn sé ofnýttur þó að afli hafi minnkað á sóknareiningu.
    Eins og hér hefur komið fram í umræðunum þá eru mjög skiptar skoðanir um það meðal sjómanna við Faxaflóa hvort leyfa eigi dragnótaveiðar. Andstaða Akurnesinga gegnum tíðina við þessar veiðar í flóanum er kunn. Sjómenn frá öðrum bæjarfélögum við flóann hafa lengi haldið því fram að það sé nauðsynlegt að nýta kolastofninn. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að nýta þennan stofn og taka þau verðmæti í þjóðarbúið sem hann gefur.
    Varðandi þá fyrirspurn sem hér kom fram um starfslok svokallaðrar nefndar um umgengni um fiksveiðiauðlindina þá hefur nefndin lokið störfum. Í kjölfar þess, eins og hv. þm. benti á, hafa togveiðar og dragnótaveiðar verið bannaðar innan þriggja mílna við suðurströndina og umhverfis Vestmannaeyjar og veiðisvæðum lokað með reglugerðum víða kringum landið. Eigi að síður var það tillaga nefndarinnar að það væri rétt og skylt að hagnýta mikilvægar kolaveiðar við suðurströndina. Þess vegna eru ákveðin svæði innan þriggja mílna við suðurströndina opin ákveðinn tíma ársins til þess að geta hagnýtt kolann. Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við í Faxaflóanum og þess vegna hefur nefndin ekki lagt til að þeim veiðum varði hætt. Þrátt fyrir mjög miklar og ítrekaðar rannsóknir bendir ekkert til þess að þessar veiðar valdi neinni óeðlilegri röskun á lífríki í flóanum.