Endurskoðun laga um mannanöfn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 10:57:20 (5882)

     Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég beini fsp. til hæstv. dóms- og kirkjumrh.:
    ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurskoðun laga um mannanöfn í ljósi reynslunnar sem af þeim er fengin?``
    Ný lög um mannanöfn hafa nú gilt frá 1991 og af þeim fengist nokkur reynsla. Nafnið er hverjum manni mikilvægt. Það verður hluti af manninum, persónunni sem ber það, einkenni sem hann ber alla ævina. Því er mikilvægt að nafnavalið sé gott og vandað og fólki þyki sæmd að nöfnum sínum.
    Nafngjöfin er fyrsta stóra gjöfin sem barn fær á lífsleiðinni í okkar landi tengd hinni helgu skírn kirkjunnar og í vitund flestra verður þetta tvennt ekki sundur skilið, nafngjöf og skírn þó það sé vissulega tvennt. Allir foreldrar velta nafni barni síns rækilega fyrir sér áður en ákvörðun er tekin. Þegar horft er til þróunar nafngifta á Íslandi sést að hún hefur á þessari öld verið mjög í rétta átt. Furðuleg dæmi eru til um skringileg nöfn á fyrri öldum. Það er kannski ekki ástæða til þess að taka mörg dæmi en ég nefni nafn eins og Jólavía sem stúlka fékk vegna þess að hún fæddist á jólum. Hún breytti þessu einfaldlega og þegjandi og hljóðalaust að því er virðist í Kristín sem er ágæt tilvísun til Krists sem fæddist á jólum, eins og þingheimi er auðvitað kunnugt.
    Drengur fékk nafnið Á, fékk úthlutað einum bókstaf. Hann breytti því sjálfur og sagðist heita Árni. Það virðist hafa verið lausn sem hafi verið látin gilda eðlilega. En löggjafaravaldið hefur á þessari öld sett fastari skorður gegn notkun ónefna af ýmsu tagi og það er vel.
    Í 2. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta: ,,Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér

hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.``
    Um gæslu þessa hefur mannanafnanefnd úrskurðarvald og endanlegt vald samkvæmt lögunum. Nefndin vinnur vissulega starf sitt eftir reglum og vinnur eftir býsna stífum lögum. Mörg góð nöfn eru ekki íslensk þótt notuð séu. Mörg brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Ég nefni t.d. nafnið Jón. Það brýtur í bág við íslenskt málkerfi. Það ætti að vera eftir ströngum reglum Jónn eins og Brjánn og Sveinn. Svona langt er ekki gengið í að framfylgja lögunum en hinu er ekki að leyna að álitamál hafa hlaðist upp að undanförnu. Fólk skilur ekki suma úrskurði nefndarinnar og sættir sig illa við þá. Prestar eru þar ekki undanskildir þótt ég tali hér ekki fyrir hönd stéttarinnar. En engin stétt er nær skírn og nafngjöf en prestastéttin.
    Virðulegi forseti. Það var til bóta að fá nefnd til stuðnings og ráðuneytis um nafngjafir en spyrja má hvort nefndin þurfi ekki að axla of mikla ábyrgð, ekki síst þegar tekið er til hendinni við hreinsun í hinum íslenska nafnasið svo sem nú er gert. Yfirgnæfandi meiri hluti íslenskra nafna er góður og gildur og hefur hér að mínu viti þróast í rétta átt þótt ég geti ekki neitað því að ýmis nýnefni veki mér furðu.
    Ég vil aðeins, virðulegi forseti, ljúka með því að nefna að nefndin hefur hafnað sumum endingarlausum nöfnum. Ásberg, Valberg, Svanberg og Eðvarð. Með sömu rökum ætti þá að banna nöfn eins og Ármann, Kristmann og Guðmann og líka er nafnið Albert endingarlaust. Það ætti að vera Aðalbjartur. ( Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. þm. á að það er ljós sem logar.) Virðulegi forseti. Það er búið að banna Haukdal líka.