Endurskoðun laga um mannanöfn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:03:44 (5884)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar lögin um mannanöfn voru sett á sínum tíma varð um þau í öllum meginatriðum ágæt samstaða hér á Alþingi. Þeim var breytt dálítið í meðförum þingsins, m.a. fyrir atbeina hv. 8. þm. Reykv. og fleiri komu þar við sögu, og það varð ágæt samstaða um málið. Ég tel að það sé mikilvægt að framkvæma lögin þannig að það sé samstaða um þau. Ég held að það sé nauðsynlegt að mannanafnanefnd taki tillit til þess sem viðgengist hefur um leið og hún fylgir hinum almennu reglum 2. gr. laganna um mannanöfn.
    Ég harma það hins vegar að aðstöðuleysi skuli hafa orðið til þess að nefndin hefur sagt af sér. Mér sýnist að það hafi verið veruleg brotalöm í aðbúnaði stjórnvalda að mannanafnanefnd og ég tel það stóralvarlegt mál og hvet hæstv. dóms- og kirkjumrh. til að bæta úr því.