Ár aldraðra

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:11:43 (5889)

     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Árið 1982 var alþjóðlegt ár aldraðra. Á því ári efndu stjórnvöld til mikils átaks í þágu málefna aldraðra, m.a. með framkvæmdaáætlun í málefnum aldraðra sem hafði það í för með sér að það hafa verið byggð síðan á árinu 1982 mörg hundruð rými fyrir aldraða hér á landi, bæði hjúkrunarrými og almenn vistrými.
    Það er hægt að halda því fram með góðri samvisku að þetta ár aldraðra 1982 hafi þannig séð markað tímamót á Íslandi. Nú er það svo að fyrir nokkru ákváðu Evrópubandalagið og EFTA-ríkin að efna til árs aldraðra í Evrópu. Síðan rofnaði það samstarf. EFTA-ríkin klufu sig út úr því. En Norðurlöndin hafa engu að síður ákveðið fyrir sitt leyti að helga þetta ár málefnum aldraðra.
    Hér á landi hefur því miður ekki orðið vart við jákvæða stefnumótun í málefnum aldraðra á þessu ári. Mér er ekki kunnugt um að neinar stefnumarkandi áætlanir í málefnum aldraðra liggi fyrir umfram það sem komið hefur fram í ákvörðun stjórnvalda á öðrum sviðum sem bitnar á öldruðum, m.a. að því er varðar lyf og læknisþjónustu og fleiri slíka þætti, sömuleiðis verðlag á sérfræðiþjónustu lækna. Göngudeildargjöld hafa hækkað o.s.frv. og allt bitnar þetta á gömlu fólki.
    Mér er kunnugt um að þau samtök sem sinna málefnum aldraðra hafa lagt mjög mikla áherslu á að reyna á árinu að efna til alls konar viðburða til að kynna hluta aldraðra í þjóðfélaginu, m.a. menningarstarfsemi á vegum aldraðra sem mun birtast með málverkasýningum síðar á þessu ári. Þá verður sérstakur hátíðisdagur helgaður málefnum aldraðra í sumar þar sem hápunkturinn verður hér m.a. í miðbæ Reykjavíkur. En stjórnvöld hafa hins vegar ekkert aðhafst að þessu leyti til og ekki lagt fram neina stefnumarkandi áætlun og samtök aldraðra og samstarfsnefndin um málefni aldraðra hefur ekki verið ,,beðin um neitt`` eins og það er orðað af hálfu stjórnvalda. Stjórnvöld hafa ekki virt samtök aldraðra viðlits á þessu

ári til þessa að því er varðar tillögur í tilefni af ári aldraðra.
    Þess vegna er fsp. borin fram um leið og hún er borin fram til að skora á hæstv. heilbrrh. að láta ekki lyfjahækkanirnar einar nægja, heldur að ákveða einhverja stefnumarkandi framkvæmdaáætlun í málefnum aldraðra sem gæti orðið til að halda áfram því mikla átaki sem efnt var til frá og með árinu 1982 og hefur sannarlega valdið kaflaskilum í málefnum aldraðra hér á landi.