Námsstyrkir doktorsefna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:36:21 (5906)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti hér og ég tek það svo að hann hafi gefið hér yfirlýsingu um að þegar á næsta löggjafarþingi verði lagðar fram lagabreytingar sem geri styrki til doktorsefna að veruleika. Staðreyndin er auðvitað sú að í því háþróaða þjóðfélagi sem við búum við er þörf og mikil nauðsyn á sérfræðingum sem hafa mjög mikla menntun í tilteknum fræðum. Ég tel að eins og búið er að herða endurgreiðslureglur lánasjóðsins sé það sanngjarnt, vegna þeirra þarfa sem samfélagið hefur fyrir krafta þessa fólks, að hið opinbera veiti því einhvers konar beina styrki til þess að framfleyta sér meðan á náminu stendur.
    Ég vil fagna því að hæstv. menntmrh. hefur þennan sama skilning. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að það verður hlutverk Vísindasjóðs að taka að sér þessa styrki. Jafnframt kom fram að Vísindasjóður ætti líka að standa straum af rannsóknum sem eiga að fara fram hjá námsmönnum í rannsóknatengdu framhaldsnámi sem ráðherrann góðu heilli hyggst beita sér fyrir innan skamms við Háskóla Íslands. Þetta vekur hins vegar upp spurningar. Þetta hlýtur að þýða verulega aukin framlög til Vísindasjóðs og ég tel að í þessari yfirlýsingu ráðherrans felist vilji til þess og ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að það verði mikill stuðningur við hann hér í þinginu þegar hann fer fram með tillögur um auknar fjárveitingar til Vísindasjóðs sökum þessa.
    Ég vil hins vegar, virðulegi forseti, þó að ég sé sjálfur mjög tengdur atvinnulífi og mitt nám, vara við því að menn tengi styrkveitingar sem þessar einungis við nám sem tengist beint við atvinnulífið. Mér fannst gæta verulega mikillar áherslu á þann þátt í máli hæstv. ráðherra. Ég tel að það sé ekki hægt að færa út jaðar þekkingarinnar bara í þeim greinum. Ég held að það sé samfella milli þeirra og annarra grunnfræða eins og heimspeki til að mynda sem ég tel afskaplega mikilvæga í tengslum við þróun atvinnulífsins og líka annarra fræða, íslenskra fræða, sagnfræða . . .   ( Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að . . .  ) Virðulegi forseti. Ég mun andstætt við ýmsa aðra þingmenn hlýða þér í einu og öllu.