Íslenskukennsla fyrir fullorðna nýbúa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:56:59 (5916)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á síðustu 14 til 15 árum hefur nýbúum á Íslandi fjölgað mjög. Árið 1979 kom fyrsti hópurinn af flóttamönnum til landsins á seinni tímum. Það komu að vísu flóttamenn áður en bátaflóttamenn komu hingað 1979 og hafa í kjölfar þeirra komið æðimargir flóttamenn frá Asíu. Síðar hefur flóttamönnum frá Evrópulöndum fjölgað mjög eftir öll þau umskipti sem orðið hafa í Evrópu. Núna í júlí sl. munu hafa verið um 11.400 útlendir ríkisborgarar eða Íslendingar fæddir erlendis hér á landi. Af þeim voru 2.840 sem töluðu tungumál sem er mjög fjarlægt íslensku.
    Það getur verið mikill gróði fyrir íslenska þjóð að fá fólk frá fjarlægum löndum hingað sem bera með sér nýja menningarstrauma, ný viðhorf og ýmislegt nýtt og gagnlegt sem við getum lært af, en við lærum því aðeins af þessu góða fólki að við getum haft eðlileg samskipti við það. Auk þess getur þetta fólk, sem við höfum heimilað veru í landi okkar og jafnvel boðið til okkar lands, ekki notið eða nýtt veru sína hér nema að hluta til ef það getur ekki átt eðlileg tjáskipti við þjóðina. Eftir því sem fólkið kemur úr fjarlægari málaumhverfi þeim mun erfiðara er auðvitað fyrir það að nýta sér að vera hér í þessu gjöfula landi. Þess vegna er það að verða brýnna og brýnna að íslenskukennslu og kennslu um íslenskt þjóðfélag og íslenska þjóðfélagshætti fyrir útlendinga sé komið vel á veg og í gott horf á Íslandi. Ég hef því lagt þessa fsp. fyrir ráðherra:
    ,,Hvernig hefur ráðherra hugsað sér að íslenskukennslu fyrir fullorðna nýbúa verði skipað í framtíðinni? Hefur heildarstefna verið mótuð í því efni?``
    Á síðustu þremur árum hafa flust til landsins tæplega 3.000 erlendir ríkisborgarar. Helmingur þeirra er úr málaumhverfi sem er mjög fjarlægt okkar. Sumir tala meira að segja tungur sem enginn Íslendingur skilur.