Íslenskukennsla fyrir fullorðna nýbúa

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:00:24 (5917)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Spurt er um framtíðarskipun íslenskukennslu fyrir fullorðna nýbúa og hvort heildarstefna hafi verið mótuð í því máli. Í október sl. skilaði starfshópur, sem ég hafði skipað vorið 1992, tillögum um íslenskukennslu fyrir nýbúa, bæði börn og fullorðna. Í skýrslunni kemur fram að á síðustu árum hefur nýbúum fjölgað mjög hér á landi. Ekki hvað síst hefur þeim einstaklingum fjölgað sem koma frá málasvæðum sem eru mjög frábrugðin því íslenska eins og hv. fyrirspyrjandi rakti. Sumir þessara einstaklinga virðast líka hafa stutta skólagöngu að baki og eiga jafnvel í erfiðleikum með lestur og skrift á sínu eigin móðurmáli.
    Starfshópurinn gerði tillögu um að nýbúar sem kæmu frá öðrum mála- og menningarsvæðum en því germanska og sem höfðu fengið dvalar- og atvinnuleyfi hér í a.m.k. sex mánuði skyldu eiga kost á allt að 240 kennslustunda byrjunarnámskeiði í íslensku samkvæmt námsskrá sem menntmrn. setti. Skyldu þátttakendur eiga kost á styrk til að sækja námskeiði sem næmi um 2 / 3 hlutum af meðalnámskeiðsgjaldi. Menntmrn. skyldi árlega ákveða styrkupphæðina.
    Starfshópurinn taldi að kostnaður vegna kennslunnar yrði fyrir fullorðna 8--20 millj. kr. á ári, háð því hversu stórum hópi þeirra nýbúa sem þegar búa í landinu væri gefinn kostur á styrk til að sækja 240 stunda íslenskunámskeið.
    Við gerð fjárlaga fyrir þetta ár þar sem beita varð ýtrasta sparnaði og skera niður ýmis útgjöld tókst ekki að fá þetta fjármagn. Það hefur þó verið tekið frá fé af fjárveitingu til almennrar fullorðinsfræðslu til þessa viðfangsefnis. Er um 1,5 millj. kr. að ræða. Þó að ekki sé um stóra upphæð að ræða, þá vona ég að hún komi að gagni. M.a. er ætlað fé í námsefnisgerð en nokkrir kennarar við Námsflokka Reykjavíkur eru að semja byrjunarnámsefni, svo sem fyrirspyrjanda er eðlilega kunnugt. Ráðuneytið styrkti þetta verk á síðasta ári og mun væntanlega gera hið sama nú á þessu ári.
    Þá eru um 1.100 þús. kr. ætlaðar í styrki fyrir svonefnda forgangshópa. Til álita hefur einnig komið að hluta þessa fjár yrði varið til sumarnámskeiðs fyrir fullorðna sem haldið yrði í tengslum við námskeið fyrir nýbúabörn.
    Mér er ljóst, eins og ég hef reyndar sagt við annað tækifæri á hv. Alþingi, að við getum komið til með að standa frammi fyrir félagslegum vanda ef við getum ekki aðstoðað þetta erlenda fólk sem er hér sest að. Það gildir ekki hvað síst um það fólk sem er að ala upp börn. Við finnum líka tilfinnanlega fyrir vandanum í grunnskólanum en þetta kallar allt á aukið fjármagn. Ég mun beita mér fyrir því að reynt verði að auka framlagið á næstu fjárlögum þannig að hægt verði að einhverju marki a.m.k. að hrinda í framkvæmd tillögum starfshópsins um byrjunarnámskeið.