Námskeið og námsgögn fyrir nýbúabörn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:09:02 (5921)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. sú sem ég legg nú fyrir hæstv. menntmrh. er nátengd síðustu fsp. Þannig er að með öllum þeim útlendingum sem flytja hingað til landsins, öllum þeim nýbúum sem hér hafa sest að, er auðvitað mikill skari barna. Þau geta lent í og eiga oft í erfiðleikum í námi vegna þess að þau eiga erfitt með að ná tökum á íslensku og eru kannski ekki búin að öðlast mjög gott vald á erfiðari hluta þess máls sem þau hafa upphaflega talað. Þetta getur jafnvel orðið til þess að börnin verði ómálga bæði á móðurmál sitt og svo hið nýja fósturmál. Þetta er vandamál sem við verðum að horfast í augu við strax og er eitt af þeim félagslegu vandamálum sem hæstv. menntmrh. hefur án efa verið að ýja að áðan fyrir utan öll önnur félagsleg vandamál sem geta upp komið. Því er mjög nauðsynlegt að búa vel að nýbúabörnunum, sem kölluð eru svo. --- Nýbúabörn eða nýbúar eru nýyrði á íslensku og tákna þá sem setjast hér að og ætla að búa hér áfram. --- Ég hef því lagt fram fsp. í tveimur liðum.
    Í fyrsta lagi: ,,Mun ráðherra standa fyrir sumarnámskeiðum fyrir nýbúabörn í samvinnu við Reykjavíkurborg á sumri komanda?``
    Meiri hluti nýbúabarna á Íslandi er á Reykjavíkursvæðinu. Samkvæmt skýrslum munu þau vera á annað hundrað á Reykjavíkursvæðinu en 201 nýbúabarn á Íslandi á skólaskyldualdri í heild. Ég veit að Reykjavíkurborg hefur áhuga á því að efna til sumarnámskeiða fyrir nýbúabörn. Það hefur komið í ljós að börnum fer jafnvel aftur á sumrin í íslensku vegna þess að þá hafa þau lítil samskipti við Íslendinga. Þess vegna er mjög brýnt að auka kunnáttu þeirra frekar en láta henni fara aftur. Þess vegna hefur Reykjavíkurborg gripið til þess ráðs að leita eftir samvinnu við ríkið um að halda slík námskeið.
    Í öðru lagi spyr ég: ,,Hversu miklu fé mun ráðherra láta verja til námsgagnagerðar í íslensku fyrir nýbúabörn á árinu 1993?`` Þannig er mál með vexti að sáralítið námsefni fyrir nýbúabörn er til á Íslandi og fyrir nýbúa almennt og þarf brýnar úrbætur í þeim málum líka.