Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:20:40 (5927)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh. um barnasjónvarp á laugardags- og sunnudagsmorgnum:
    ,,Hver er kostnaður Ríkissjónvarpsins á ári af barnasjónvarpi á laugardags- og sunnudagsmorgnum? Hvaða ástæður liggja til grundvallar slíkri tímasetningu barnaefnis í sjónvarpi?``
    Ástæðan til þess að ég spyr um þetta á Alþingi er sú að það kom vissulega á óvart þegar Ríkisútvarpið var í stakk búið fjárhagslega til þess að auka við dagskrá sína með því að hefja útsendingar á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Á tímum þegar við heyrum um það að ríkisstofnanir eru að draga saman og reyna að koma á fót hagræðingu og sparnaði, þá virðist Ríkisútvarpið vera svo vel í stakk búið að það geti lengt dagskrá sína. En það er ekki það sem mér er kannski efst í huga, heldur hitt að ég hef verið Ríkisútvarpinu mjög þakklátur í gegnum árin fyrir að gefa fjölskyldum landsins frið frá sér á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Þetta eru þeir tímar vikunnar sem fjölskyldan hefur getað verið saman og þar leynast dýrmætar stundir þar sem foreldrar hafa getað talað við börnin sín. Mér finnst mikið frá fjölskyldum tekið með því að sjónvarpið ætli að fara að keppa við foreldrana um það að tala við börnin í landinu.
    Þá er einnig til þess að geta að fjölmargir aðilar, kirkja, íþróttafélög og ýmis önnur tómstundafélög, hafa einmitt haft mjög fjölbreytilegt starf með fjölskyldunni allri á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Þess vegna kom mér það á óvart að það skyldi verða mat Ríkisútvarpsins að þetta væri sá tími vikunnar þegar börn hefðu mestan áhuga eða mundu helst þiggja að sjónvarpið yki við þjónustu sína.
    Þess vegna er mikilvægt að við fáum að vita hvað barnasjónvarpið kostar í fjármunum til þess að geta metið það m.a. hvort hér sé verið að verja fjármunum vel í þágu barnanna og einnig hvað réði sérstaklega að þessi tímasetning skyldi verða fyrir valinu. Ég er mjög hlynntur því að sjónvarpið þjóni börnum vel, ekki endilega í magni heldur að gæðum. Það er kjarni málsins.