Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:23:42 (5928)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna fsp. hv. þm. leitaði menntmrn. eftir umsögn Ríkisútvarpsins um mál þetta og er umsögnin svohljóðandi:
    ,,Heildarkostnaður Ríkisútvarpsins vegna morgunsjónvarps barnanna á laugardags- og sunnudagsmorgnum verður 30 millj. kr. árið 1993. Er þá talin efnisöflun og tilreiðsla efnis, innlent efni, samsetning og kynningar. Það hefur í mörg ár verið ljóst að næsta skrefið í eðlilegri dagskrárlengingu sjónvarpsins yrði morgunsjónvarp um helgar. Sjónvarpsdagskrá er víða með svipuðu sniði og í nágrannalöndum okkar er barnaefni nær hvarvetna sýnt árdegis á laugardögum og sunnudögum.
    Hér á landi varð morgunsjónvarp barnanna einnig til þess að skapa jöfnuð. Nú eiga öll íslensk börn þess kost að njóta sömu ánægju þessar stundir. Morgunsjónvarp barnanna hefur farið einkar vel af stað og er mjög vinsælt dagskrárefni sem eykur enn á fjölbreytni Ríkisútvarpsins/sjónvarps.``
    Þetta er það svar sem ráðuneytið fékk frá Ríkisútvarpinu um þessa nýbreytni og ég hef svo sem engu við þessi orð að bæta. Ég held að þarna komi fram sem um er spurt, kostnaðurinn og hvað lá að baki því að þessi tími var valinn. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það er víða keppt um athygli manna og ekki síst barna og unglinga.

    Ég vil svo aðeins bæta því við að þessi ákvörðun er auðvitað alfarið Ríkisútvarpsins. Ef það telur sig hafa efni á því að leggja í þessa lengingu, þá gerir það það án nokkurra afskipta ráðuneytisins. Það er hlutverk útvarpsráðs að taka slíkar ákvarðanir.