Barnasjónvarp

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:28:29 (5931)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Þegar frjáls útvarps- og sjónvarpsrekstur hófst hér fyrir nokkrum árum, þá var því mjög haldið á lofti að hann yrði ekki til þess að auka fjölbreytni í útsendingum útvarps- og sjónvarpsefnis. Hið gagnstæða kom á daginn með því að Stöð 2 hafði allt frumkvæði að talsetningu góðs barnaefnis sem sent var út á ýmsum tímum yfir vikuna, m.a. á laugardögum og sunnudögum. Maður hefði getað vænst þess þegar Ríkisútvarpið hafði til þess fjárhagslegt ráðrúm að auka barnaefni sitt að Ríkisútvarpið hefði kosið að gera það með þeim hætti að auka á fjölbreytnina fyrir börnin og t.d. kosið að hafa útsendingu á öðrum tíma en þegar Stöð 2 sýnir efni fyrir börn. Þess vegna vekur það mikla athygli og mikla undrun að á sama tíma og Stöð 2 er, nánast á þessum mánuðum, að auka mjög útbreiðslu sína með því að ljósleiðarasamband er að komast á við æ fleiri sveitarfélög hafi Ríkisútvarpið ekki tekið þann kostinn að hafa þetta barnaefni á öðrum tímum. Það gerði það ekki og þess vegna vekur það mjög mikla undrun að Ríkisútvarpið skyldi ekki kjósa annan hátt en þann að hafa þetta sjónvarpsefni í kapp við annað á laugardags- og sunnudagsmorgnum. ( ÖS: Hvað með frjálsa samkeppni?)