Ráðstafanir til að sporna við ólæsi

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:38:14 (5938)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef átt í vandræðum með röddina undanfarnar vikur og þegar ég þarf að tala meira en venjulega lendi ég í enn meiri vanda. En við skulum sjá hvernig þetta tekst.
    Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands hóf starfsemi sína haustið 1992 og starfar á grundvelli laga um Kennaraháskólann. Hún starfar að hluta til skv. 3. gr. reglugerðar um sérkennslu, nr. 98/1990, og 31. gr. reglugerðar um framhaldsskóla, nr. 23/1991. Lestrarmiðstöðin er til húsa í Kennaraháskólanum.
    Hlutverk lestrarmiðstöðvar Kennaraháskólans er í fyrsta lagi að þjóna nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi víðs vegar um landið sem eiga við sérstaka lestrarerfiðleika að etja. Þessi þjónusta getur falist í greiningu og kennslu nemenda ásamt ráðgjöf og leiðbeiningum til kennara. Í öðru lagi að bjóða fullorðnu fólki með lestrarörðugleika greiningu, kennslu og ráðgjöf. Og í þriðja lagi að standa fyrir rannsóknum á læsi, lestri og lestrarkennslu eftir því sem aðstæður leyfa.
    Við lestrarmiðstöðina starfar nú einn starfsmaður, sérkennari, en annar starfsmaður verður ráðinn frá og með hausti 1993. Í vetur hefur forstöðumaður veitt nemendum í grunnskólum og framhaldsskólum, mest á höfuðborgarsvæðinu, ráðgjöf og kennslu en hefur ekki getað sinnt nærri öllum beiðnum sem hafa borist. Með haustinu verður væntanlega hægt að sinna betur aðstoð við fullorðna og auka greiningu, ráðgjöf og kennslu grunn- og framhaldsskólanemenda. Greiningarstöð ríkisins stundar enn fremur greiningu og ráðgjöf varðandi lestrarerfiðleika.
    Árið 1989 stóð menntmrn. fyrir málræktarátaki þar sem m.a. var lögð áhersla á mál og máluppeldi barna, lestur o.fl. Árið 1990 stóð ráðuneytið fyrir ári læsis að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og UNESCO. Í því átaki var mikil áhersla lögð á mikilvægi læsis og reynt að ná til almennings með ýmsum ráðum, ekki síst foreldra og annarra fullorðinna auk skóla. Reynt var m.a. að virkja fjölmiðla til samstarfs. Margar greinar birtust í dagblöðum og tímaritum og einnig tóku margar útvarpsstöðvar vel við sér. Dreift var upplýsingum um læsi og gildi lestrar ásamt lestrarhvatningu til skóla, foreldra og félagasamtaka. Ráðuneytið gekkst fyrir fjölsóttri og þarfri ráðstefnu síðla árs 1990 undir heitinu ,,Lestrarörðugleikar í nútímasamfélagi`` í samstarfi við samtök foreldra barna með leserfiðleika. Fyrirlestrarnir frá ráðstefnunni voru síðar gefnir út í bæklingi.
    Önnur ráðstefna um lestrarörðugleika er nú í undirbúningi á vegum menntmrn. og verður hún haldin 27. mars nk. Ráðstefnan er ætluð íslenskukennurum í efri bekkjum grunnskólans, framhaldsskólans og námsráðgjöfum. Með henni er ætlunin að hjálpa kennurum að greina lestrarerfiðleika nemenda þegar þeir verða þeirra varir, hvort sem þeir eru litlir eða miklir, benda á leiðir og leiðbeina kennurum um hvað sé hægt að gera og hvert eigi að leita um aðstoð. Lestrarerfiðleikar hafa áhrif á allt nám nemenda og því er brýnt að bregðast við þeim strax og þeirra verður vart.
    Ég held að með þessari upptalningu megi sjá að af ráðuneytisins hálfu hefur verið unnið vel að þessum málum. Ég nefndi hérna fimm þætti, málræktarátakið 1989, ár læsis 1990, ráðstefnu um lestrarörðugleika í nútímasamfélagi árið 1990, lestrarmiðstöð Kennaraháskólans, sem tók til starfa á sl. hausti, og svo þessa ráðstefnu sem er í undirbúningi og ég nefndi hér síðast.