Ráðstafanir til að sporna við ólæsi

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:42:19 (5939)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það kemur sífellt betur og betur í ljós hversu alvarlegt vandamál ólæsi ungmenna og raunar fullorðinna líka er. Mig langar aðeins að benda á einn þátt þessa máls sem ekki hefur komið svo upp á yfirborðið núna. Það er að það eru a.m.k. tvær ólíkar ástæður fyrir því að ungmenni eiga erfitt með að læra að lesa. Önnur er félagsleg en hin er meira háð líkamlegum vanköntum. Ég vil undirstrika að í því þjóðfélagi sem býr ekki betur að börnum sínum og fjölskyldum landsins en raun ber vitni getum við ekki átt von á öðru en ólæsi í stórum stíl og það mun versna ef kjör fjölskyldna í landinu batna ekki.