Ráðstafanir til að sporna við ólæsi

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 12:44:16 (5941)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin sem hann flutti hér. Í framhaldi af þeim tel ég afar brýnt núna að taka á þessu vandamáli og að það verði m.a. gert með því að fram fari nákvæm könnun á því hvernig ástandið er raunverulega í þessum efnum. Mér skilst að engin slík könnun hafi farið fram. Hvort hún er í undirbúningi veit ég ekki.
    Í öðru lagi þarf að kanna það mjög gaumgæfilega hvaða ástæður kunna að liggja að baki vaxandi ólæsi og minnkandi bókhneigð barna og ungmenna. Þetta er eitt af okkar stærstu mennta- og félagsmálum. Hér hljóta mjög margir að koma að máli, ekki einvörðungu skólakerfið heldur heimilið líka og síðast en ekki síst sjónvarpið. Fræðimenn hafa t.d. haldið því fram að vaxandi sjónvarpsgláp dragi úr lestrarkunnáttu barna og unglinga. Þessar tvær fyrirspurnir, sem ég hef hér gert að umræðuefni, annars vegar sjónvarpshorfun barna og unglinga á laugardags- og sunnudagsmorgnum og hins vegar ólæsi á meðal barna og unglinga, kunna að vera tengdar í þessum efnum. Það er líka spurning hvort 30 millj. kr. sem varið er til þess að hafa ofan af fyrir börnum á laugardags- og sunnudagsmorgnum kynni að vera betur komið t.d. í gerð fræðsluefnis í sjónvarpi til þess að auðga skilning barna á því að þau þurfa að læra að lesa og líka að hjálpa börnum að gera það. Þetta held ég að sé nokkuð sem við ættum að hugleiða í stað þess að láta Stöð 2 og einkafyrirtækin í landinu eflast í áhrifum á uppeldis- og menntastefnunni almennt í landinu.