Stálvinnslan hf.

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:03:08 (5949)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Út af fyrir sig er ekki margt um þau að segja á þessu stigi málsins í fyrirspurnatíma nema það að mér fannst glitta í ákveðnar kreddur í viðhorfum til stefnumótunar í atvinnu- og umhverfismálum. Hann hafnaði sértækum aðgerðum. Út af fyrir sig er gott að komast hjá sértækum aðgerðum eins og kostur er. Væri það að setja þetta fyrirtæki af stað sértækar aðgerðir t.d.? Mitt svar er nei. Þessi starfsemi, þ.e. að safna saman brotajárninu og að tæta það og bræða síðan og flytja það út sem verðmæti, eru almennar þjóðþrifaaðgerðir. Það flokkast ekki undir sértækar aðgerðir að neinu leyti. Hér er sem sagt ekki um það að ræða að menn séu fyrst og fremst að horfa á stuðning við einstakt fyrirtæki þegar menn eru að skoða þetta frá umhverfissjónarmiði. Menn eru að tala um að landið sé allt sem hreinast og það sé sem skynsamlegast tekið á umhverfisstefnumótun yfirleitt bæði í orði og verki. Ég held að þessi orð umhvrh., án þess að ég vilji vera að ræða þau neitt ítarlega hér, gefi tilefni til þess að Alþingi velti því rækilega fyrir sér þó síðar verði svo og stjórnvöld hvernig best er unnt að samtengja stefnumótun í umhverfismálum og atvinnumálum þannig að það sem gert er í umhverfismálum verði atvinnuskapandi, ekki aðeins varðandi þetta fyrirtæki heldur fjölmörg önnur.