Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:08:08 (5951)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Upplýsingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins gefa til kynna að enn þá hefur ekki borið mjög á lakari skilum á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Miðað við gjalddaga lána í febrúar sl. voru skilin 2% lakari nú en fyrir ári síðan. Um 63% afborganna höfðu skilað sér í febrúarlok samanborið við 65% í fyrra.
    Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er húsnæðismálastjórn heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs verkamanna ef greiðslubyrði afborgana vaxta og verðbóta fer yfir tiltekið hlutfall af heildartekjum greiðanda. Hjá Byggingarsjóði ríkisins og húsbréfadeild eru engar heimildir til að fresta greiðslum eða bæta við þegar veitt lán. Ekki verður séð að tillögur aðila vinnumarkaðarins um að lækka hámarksfjárhæð í húsbréfakerfinu um 1 millj. kr. dragi úr líkum á greiðsluvanda.
    Rétt er að undirstrika mikilvægi þess að nú er greiðslumat forsenda fyrir allri fyrirgreiðslu í húsnæðiskerfinu og það hefur eflaust mikið að segja miðað við stöðuna í dag. Frá því á árinu 1983 til ársloka 1991 hafa verið í gangi aðgerðir til að leysa greiðsluvanda íbúðareigenda. Á tímabilinu 1985--1991 voru veitt lán vegna greiðsluerfiðleika og húsbréfafyrirgreiðslu fyrir um 5,5 milljarða kr. á verðlagi 1991. Mesti vandi íbúðareigenda á hverjum tíma hefur verið að standa undir skammtímalánum hjá bönkum og sparisjóðum.
    Ég tel að nauðsynlegt sé að gera úttekt á umfangi og eðli greiðsluvanda heimilanna. Nú er í undirbúningi á vegum félmrn., fjmrn. og viðskrn. athugun á stöðu þessara mála. Ef gripið verður til aðgerða er mikilvægt að þær verði samræmdar með bönkum og lífeyrissjóðum. Þegar athugaðar eru skuldir heimilanna er ljóst að rúmlega helmingur eru lán frá opinberu íbúðalánasjóðunum. Eðli málsins samkvæmt hefur hlutverk þeirra aukist á undanförnum árum vegna þess að verið er að færa íbúðafjárfestingu í einn farveg hjá hinu opinbera og hverfa frá dýrum skammtímalánum hjá bönkum. Um leið og opinberu íbúðalánin hafa aukist hefur dregið úr lánveitingum lífeyrissjóða til sjóðfélaga. Þannig voru lán til sjóðfélaga 11,9% af heildarráðstöfun fjármagns lífeyrissjóðanna árið 1991 samanborið við 14% 1989. Einnig hefur dregið úr lánum banka og sparisjóða til einstaklinga vegna íbúðarkaupa og húsbygginga.
    Árleg útlánaaukning innlánsstofnana vegna íbúðalána var um 1,1 milljarður á árinu 1991 samanborið við 4,3 milljarða á árinu 1989. Þessi þróun sést einnig vel þegar borin eru saman árin 1991 og 1992. Þá kemur í ljós að útlánaaukning vegna íbúðalána einstaklinga var 800 millj. milli 1991 og 1992 samanborið við rúma 4 milljarða 1989. Hins vegar varð aukning á þessum tímabili um 4,5 milljarða lán til einstaklinga vegna annarra þarfa.
    Af því sem ég hef sagt sést vel á þessum tölum hvaða áhrif húsbréfakerfið hefur haft til þess að draga úr dýrum skammtímalánum í bönkum sem fyrst og fremst hafa leitt til greiðsluvanda heimilanna. Með hliðsjón af þessu og að nú fer fram greiðslumat hjá öllum ættu forsendur í slæmu árferði að vera betri en ella. Ljóst er þó að vegna atvinnuástandsins og minni yfirvinnu hafa vanskil fólks aukist og er þar einkum um að ræða í bankakerfinu. Ég tel því mjög mikilvægt að kannað verði hvernig vanskil hafa þróast hjá bönkum, lífeyrissjóðum og byggingarlánasjóðnum. Athuga þarf sérstaklega hvort íbúðum hefur fjölgað sem fara á nauðungarsölu. Jafnframt þarf að skoða vanskil fólks hjá byggingarlánasjóðum og bönkum með tilliti til búsetu og hve margar íbúðir Húsnæðisstofnun hefur leyst til sín af þessum sökum. Þessi atriði eru nú í skoðun og í framhaldi af því mun ég taka þetta mál til nánari umfjöllunar milli mín, fjmrh. og viðskrh. og væntanlega í framhaldi af því í ríkisstjórn.