Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:12:28 (5952)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Sívaxandi skuldasöfnun heimila í landinu hjá venjulegu alþýðufólki er að ég hygg að verða að þjóðarharmleik. Við sem vinnum við þessi mál verðum í auknum mæli vör við að skuldasöfnunin er að leiða til eignamissis og upplausnar í fjölskyldum. Það er kannski ekki talað eins mikið um það og erfiðleika í atvinnulífi en ég hygg að afleiðingarnar séu á margan hátt alvarlegri og brýnna að taka á þeim málum heldur en því að leysa tilfallandi gjaldþrot hjá fyrirtækjum þó að þetta haldist nú gjarnan í hendur, erfiðleikar atvinnulífsins og erfiðleikar heimilanna í landinu. Ég treysti hæstv. ráðherra til þess að hafa forgöngu fyrir því að gripið verði til raunverulegra aðgerða til þess að leysa þessi alvarlegu mál sem sívaxandi skuldasöfnun heimilanna í landinu er að verða.