Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:18:38 (5956)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli því að hér er svo sannarlega um áhyggjuefni að ræða. Það er náttúrlega fyrst til að taka að atvinnuleysi í landinu fer hraðvaxandi og fólk á góðum starfsaldri með miklar skuldir og skuldbindingar verður atvinnulaust og hefur engar tekjur nema atvinnuleysisbætur. Þetta er hin ískyggilega staða og þetta er það sem ríkisstjórnin hefur horft upp á í tvö ár, þessa þróun, og það er þetta sem aðilar vinnumarkaðarins sjá og eru að reyna að hysja upp um ríkisstjórnina þessa dagana með tillögum. En allar tillögur varðandi þetta mál fram að þessu hafa einkennst af miklu fáti og fumi og ráðleysi. Eitt er ákveðið í dag og dregið til baka á morgun. Það er þetta sem er alvarleg staða í þessu hvað svo sem hv. stjórnarliðar segja í sínum athugasemdum.