Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:21:14 (5958)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Bernódusdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Því miður verð ég að segja að svar hæstv. ráðherra olli mér miklum vonbrigðum, ekki síst fyrir það að engin viðbrögð virðast hafa orðið hjá ríkisstjórninni þrátt fyrir að þær upplýsingar sem ég reifaði áðan hafi legið fyrir um langt skeið. Unga fólkið er mjög skuldsett og ekki sér fram úr skuldabyrðinni.
    Árið 1991 jukust húsbréfalán, urðu það ár 16 milljarðar kr. Þá verða afföll á bilinu 15--24%. Hefur hæstv. félmrh. velt þeim vanda fyrir sér að sumt af þessu fólki greiðir nú af 4 millj. kr. láni en fékk aldrei nema 3 millj. kr. í hendurnar? Afföllin hirtu 1 millj. kr. vegna þess að vaxtakrafan var það há og útgáfan mikil. Ég spyr hæstv. félmrh.: Hefur þessi staða verið rædd í félmrn. og ríkisstjórninni? Ríkisstjórnin getur greitt fyrir kjarasamningum og komið í veg fyrir átök á vinnumarkaði. Hún getur einnig komið með úrræði til að stemma stigu við atvinnuleysi ef vilji væri fyrir hendi. Forseti ASÍ hefur bent á að hér verði að marka vaxtastefnu sem sé hliðholl ungu fólki og atvinnulífinu og sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu gengið of langt í vaxtatöku síðustu ár. Heimilin stæðu öðruvísi ef ríkisstjórnin drægi til baka verstu skattálögurnar frá því í vetur. Skattleysismörk þurfa að hækka. Ég nefni vaxtabætur sem skertar voru um 400 millj. kr. og ráða miklu um það hvort fólk getur staðið í skilum. Ég nefni mikilvæga niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði barna svo að ekki sé nú talað um þann niðurskurð sem hæstv. heilbrrh. hefur staðið að.
    Margt er hægt að gera til að greiða úr vanda heimilanna og fjölskyldnanna en fyrst er að setja sér markmið og skilja að hér er um þjóðfélagslegan vanda að ræða sem getur orðið óleysanlegur ef ekki er brugðist strax við. Þann skilning skortir algerlega hjá þessari ríkisstjórn.